Barnaverndarþjónusta Vestmannaeyja og lögreglan í Vestmannaeyjum hvetja foreldra til að fara vandlega yfir samfélagsmiðlanotkun barna sinna. Tilefnið er mál sem hefur komið upp í Eyjum sem tengist svokölluðum 764 ofbeldishópi.
Umræddir hópar geta borið mismunandi nöfn, en eiga það sameiginlegt að nota börn í annarlegum tilgangi. Samskiptin fara fram í gegnum samfélagsmiðla og leiki sem eru með spjall möguleika inn á. Reynt er að hafa áhrif á börn og unglinga, meðal annars með því að ginna þau til kynferðislegrar hegðunar, ofbeldisfullra athafna, sjálfsskaða, glæpahegðunar og í verstu tilfellum til sjálfsvígs.
RÚV hefur fjallað um starfsemi þessara hópa undanfarna daga og vakið athygli á hættunum sem þeim fylgja, umfjöllun má finna hér.
Barnavernd og lögregla í Vestmannaeyjum hvetja foreldra til að taka þessum viðvörunum alvarlega. Foreldrar eru beðnir um að skoða samfélagsmiðla barna sinna með gagnrýnu hugarfari og fylgjast með hvort eitthvað sé óvenjulegt eða grunsamlegt.
Ef eitthvað slíkt kemur upp eru forelrar eru hvattir til að hafa tafarlaust samband við lögregluna í Vestmannaeyjum eða við Barnaverndarþjónustu Vestmannaeyja. Hægt er að senda fyrirspurnir eða ábendingar á netfangið barnavernd@vestmannaeyjar.is




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst