Þjóðhátíðarnefnd hefur síðastliðin ár staðið á bak við forvarnarverkefni á borð við Bleika fílnum, Sofandi samþykkir ekkert og Verum vakandi. Í ár verður engin breyting þar á og mun nefndin standa fyrir átaki undir yfirskriftinni „Er allt í lagi?“.
Átakið byggir á einföldum en áhrifaríkum skilaboðum sem hvetja gesti til að sýna ábyrgð, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Auðvelt er að spyrja aðra „Er allt í lagi?“ og flestum þykir í lagi að vera spurðir. Þannig eru gestir hátíðarinnar hvattir til þess að kanna aðstæður óhikað og spyrja einfaldlega „Er allt í lagi?“ Ef svo er ekki er hægt að hafa samband við 112 í síma, á vefnum eða í appinu. Einnig er hægt að ná í gæsluliða sem koma málinu í réttan farveg.
Merki átaksins verða gul fyrirliðabönd og eru gestir hátíðarinnar hvattir til þess að skarta böndunum til merkis um ábyrgð okkar allra að berjast gegn ofbeldi. Markmiðið er að allir gestir skemmti sér vel, í öruggu og hlýlegu umhverfi, og fari heim sáttir að hátíð lokinni. Þjóðhátíðarnefnd ítrekar að allt ofbeldi er með öllu óásættanlegt og lögð er rík áhersla á að tekið sé á málum af festu, með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.
Frekari upplýsingar má finna á dalurinn.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst