Óskar Pétur Friðriksson heldur áfram að grúska í ljósmyndasafni sínu og rifja upp gamla tíma í Eyjum. Nú fer hann aftur til ársins 2010. Gefum Óskari orðið:
„Þar sem sláturtíð stendur sem hæst þetta haustið er gamla myndin frá árinu 2010 er fjárbændur og vinir þeirra fóru og smöluðu fé sínu í Suðurey.
Féð var ekki á þeim nótunum að láta smala sér í rétt og braust í tvígang á móti smölunum og fóru niður hlíðar Suðureyjar sunnan megin. Ótrúlegt að mynda féð hlaupa á móti smölunum í stað þess eins og vanin er að þær fari undan þeim. Að lokum hafðist að koma fénu í rétina og sláturlömbum var sigið niður í Lubbu en féð sem var eftir í eynni var rúið og bólusett.
Töluvert var haft fyrir þessu og sem dæmi sleit Hallgrímur Tryggva vöða í fótlegg sínum og Herjólfur Bárðarsson kom á tuðru til að ná í Hallgrím og koma honum til lands og undir læknishendur. Það brældi einnig upp er leið á daginn og flestir smalarnir komu nokkuð blautir heim eftir að hafa siglt til baka á opnum tuðrum í pusinu.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst