Lundinn settist upp 16. apríl og þar með var komið sumar hjá mér eins og vanalega, og lundinn heldur í hefðirnar og sest upp á tímabilinu 13-20 apríl. Ég man reyndar eftir því fyrir mörgum árum síðan að hann lá í svarta þoku og rigningu alla þessa viku og það endaði með því að ég gerði mér ferð upp í brekkuna fyrir ofan Skýlið og það passaði, það sat öll brekkan.
Í ár frétti ég reyndar af lundanum viku fyrr á sjónum hérna við Eyjar, en þetta er bara skemmtilegt. Síðustu daga hefur verið mikið kvöldflug og allt útlit fyrir það, að við séum að fá framhald af síðasta sumri, sem var eiginlega bara sögulegt, svo mikið var af lunda hérna.
Stóra áhyggjuefnið er, eins og svo oft áður, hvernig fæðuframboðið er, en ég hef heyrt af því að það sé svolítið af síli inni í fjöru, en eitthvað er nú minna af æti hérna dýpra, en ég tók eftir því á sjónum í dag að súlan var á fullu að steypa sér í afbeituna hjá mér, þannig að þetta er eitthvað misjafnlega gott ástandið á fæðuframboðinu. En vonandi verður sumarið framhald af síðasta sumri.
Gleðilegt lundasumar allir.
Georg Eiður Arnarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst