Áætlað er að ný vatnsleiðsla, svokölluð NSL4 almannavarnalögn, verði lögð á milli lands og Eyja næsta sumar. Um er að ræða umfangsmikla og dýra framkvæmd sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum telja að ríkið eigi að standa straum af, þar sem lögnin sé hluti af almannavörnum landsins.
Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar áttu fund með fjármálaráðherra í lok september þar sem ítrekuð var krafa bæjarins um að lögnin verði alfarið á ábyrgð og kostnað ríkisins, líkt og aðrar framkvæmdir sem tengjast almannavörnum. Í gildi er viljayfirlýsing milli ríkisins og sveitarfélagsins sem nú þarf að endurskoða í þessu skyni, og er það samtal þegar hafið.
Bæjaryfirvöld benda á að kaup og niðurlagning á leiðslunni muni hafa veruleg áhrif á fjárfestinga- og framkvæmdargetu sveitarfélagsins, þar sem þunginn af greiðslunni mun leggjast á næsta ár ef ekki kemur til frekara framlags frá ríkinu. Vestmannaeyjabær ber samkvæmt lögum ábyrgð á aðgengi að vatni fyrir íbúa og fyrirtæki, en ekki á sérstakri almannavarnalögn.
Bæjarráð Vestmannaeyja hyggst áfram fylgja eftir samtali við ríkið um fjármögnun verkefnisins og segir í bókun að um gríðarlegt hagsmunamál sé að ræða fyrir íbúa Eyjanna.
Samhliða undirbúningi nýrrar vatnsleiðslu stendur Vestmannaeyjabær einnig í dómsmáli vegna eldri lagnar. Um er að ræða mál bæjarins gegn Vinnslustöðinni vegna tjóns sem varð á NSL3 neysluvatnslögninni 17. nóvember 2023.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands 13. nóvember næstkomandi, og mun vatnshópur bæjarins funda með lögmanni sínum nú í október til að fara yfir stöðuna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst