Þjóðhátíð Vestmannaeyja var sett í Herjólfsdal í gær. Í kjölfarið flutti Páll Scheving Ingvarsson hátíðarræðu Þjóðhátíðar. Páll átti sæti í þjóðhátíðarnefnd í samtals á annan áratug. Ræðu Páls má lesa í heild sinni hér að neðan.
Kæru Eyjamenn og aðrir hátíðargestir. Velkomin í Herjólfsdal. Flest ykkar geta örugglega yljað sér við ljúfar og skemmtilegar minningar af hátíðinni.
Ég get gert það líka. Þegar ég var unglingur fannst mér mannlífið alltaf merkilegast. Ég man að sumir kappar voru á kafi í ástarbrímanum og rómantíkinni, rétt ráku tunguna í rjómakokteil og fylltust um leið af undarlegri þrá til þess að tína villt blóm fyrir sína heittelskuðu, fá í staðinn að leiða hana um dalinn og hvísla í eyru hennar ástarorðum, sjálfsagt í von um ríkuleg laun á leiðarenda.
Aðrir klæddu sig í hænubúning og sturtuðu í sig Tindavodka, stanslaust í fjóra sólahringa, flippuðu út, sungu Ólafíu meðan þeir kúkuðu milli tjalda, böðuðu sig í tjörninni, sváfu svo vært í veitingatjaldinu.
Mér er líka minnisstætt að ákveðnir einstaklingar í strákahópnum voru duglegir að vakta aðkomutjöldin og létu boð berast ef samfarahljóð bárust frá einhverju af tjöldunum. Það þótti fyndið og spennandi að gera at við þessar kringumstæður. Þetta voru yndislegir tímar.
Ég var fyrst í Þjóðhátíðarnefnd árið 1982. Þá 19 ára gamall. Ég man eftir þungri stund á fimmtudeginum fyrir þá hátíð. Þegar Eiríkur heitinn Hestur sem var með mér í nefndinni kom til mín og tilkynnti mér að honum hefði boðist túr á góðum bát og væri á leiðinni um borð. Þú reddar þessu Palli minn, sagði Eiríkur, glotti aðeins og kvaddi mig. Það sem fór verst í mig var að á þessum tíma var hefð fyrir keppni í reiptogi yfir tjörnina milli bæjarstjórnar og Þjóðhátíðarnefndar eftir setningu á föstudegi, og það að missa hestinn úr reiptoginu olli mér sannarlega kvíða. En nefndin beit á jaxlinn og dró bæjarstjórnina í tjörnina.
Þjóðhátíðin 1982 var sérstök að því leyti að hún fór ekki fram á Verslunarmannahelgi. Hugmyndin var víst að reyna að draga úr óreglu, neyslu áfengis. Minnka þátttöku rugludalla af Norðureyjunni og meiri áherslu á kakó, vöfflur, keppni í hástökki og heimamenn. Færa hátíðina inn í fortíðina!
Ein auglýsingin hljómaði til dæmis svona.
„Njótum Þjóðhátíðar í fögru umhverfi
Án áfengis
Nóg er búið að rigna í sumar
Höldum þurra Þjóðhátíð.
Barnaverndarnefnd
Áfengisvarnarnefnd
Þjóðhátíðarnefnd
Lögreglan”
Þetta virkaði ekki. Margir laumuðu einhverju sterku í kakóið, sungu í tjörninni, sváfu í bekkjabílum og flippuðu út. Engin Þjóðhátíð eftir þessa hefur verið utan Verslunarmannahelgar.
Það virkar ekki alltaf að færa sig aftur í tímann. Því miður. Ilmur af eplum minnir nútímabarnið ekki á jólin. Tíminn hefur öflugar tennur.
En það urðu til jákvæðar breytingar nokkrum árum seinna. Mér er minnisstætt þegar ég sagði frá þeim breytingum í viðtali um framkvæmd Þjóðhátíðar, að bjórinn hefði haft jákvæð áhrif á hátíðina og í raun breytt hátíðinni. Það féll ekki í góðan jarðveg og fékk mikla og neikvæða umræðu. Það er hins vegar staðreynd. Við sem þekkjum framkvæmd Þjóðhátíðar bæði fyrir og eftir opnun á bjórsölu í landinu, getum staðfest það. Það hefur önnur áhrif á dagsformið að byrja að þamba vodka í hádeginu heldur en bjór. Geðveikin verður mun minni. Það er mikill munur á því að mæta Bjarndýri eða Belju í Dalnum.
Eftirminnilegasta atriði sem ég kom að á Þjóðhátíð er tvímælalaust þegar við bjuggum það til að mögulega fengi Árni Johnsen að flytja Brekkusönginn í Herjólfsdal. Þrátt fyrir að vera í afplánun á Kvíabryggju. Við auglýstum Árna sem flutningsmann brekkusöngsins. Og fjölmiðlar fóru á flug og gríðarleg umræða skapaðist í þjóðfélaginu um þetta mál, og skoðanir mjög skiptar. Við tilkynntum svo komu Árna með þyrlu í Herjólfsdal og fengum til þess leyfi frá Flugmálastjórn. Sú stund var þrungin spennu sem þjóðhátíðarnefnd hafði byggt upp og magnað snilldarlega, þegar þyrlan kom fyrir Fiskhellanefið kl. 23.00. Allt sturlaðist í dalnum.
Allir fjölmiðlar voru í Herjólfsdal. Beinar útsendingar á bæði RÚV og á Bylgjunni, báðar sjónvarpsstöðvarnar og öll blöð tilbúinn á staðnum. Þyrlan lenti í dalnum, en afhenti bara bréf frá Árna Johnsen. Í þessu máli stóðum við Árni þétt saman með góðum árangri, blessuð sé minning hans. Það var aldrei inni í myndinni að hann fengi að koma fram á Þjóðhátíð þetta árið. Þetta heppnaðist vel en ég vona að þetta verði ekki endurtekið. Þjóðhátíðarnefnd hafði mjög þungann hjartslátt þegar þyrlan í mjög lágu flugi, blés út hvítu tjöldin, sveimaði svo yfir mannfjöldanum brekkunni og þeytti víst hárkollum af tveimur gestum.
Ég starfaði með mjög góðu og öflugu fólki í mörg ár við framkvæmd Þjóðhátíðar. Lengst með Tryggva Má og Bigga Gauja, miklum baráttumönnum. Allt þetta fólk vildi leyfa Þjóðhátíðinni, þessum merkilega menningarviðburði, að byggjast upp og þróast áfram. Hægt og rólega. Styrkja hefðirnar, en vera opið fyrir nýjungum og sýna ungdómnum umburðarlyndi. Hann erfir landið og þarf að gera það sama síðar. Við skulum heldur ekki gleyma því að Þjóðhátíð er lykilfjáröflun í rekstri íþróttastarfs þessa samfélags. Að mörgu er að huga.
Ég hvet því Ellert son minn og félaga hans í Þjóðhátíðarnefnd til að halda áfram að styrkja og þróa hátíðina inn í framtíðina, með virðingu fyrir þeim hefðum sem ríkja og langri sögu Þjóðhátíðar.
Síðast en ekki síst, Eyjamenn. Þjóðhátíð Vestmannaeyja er stór viðburður sem vekur mikla athygli og hefur mikið aðdráttarafl. Hvert einasta samfélag í þessu landi þráir að geta framkvæmt eitthvað í líkingu við Þjóðhátíð. Við hins vegar gerum það. Þjóðhátíð er verk fjölmargra öflugra einstaklinga. Sumir þeirra eru ekki lengur á meðal okkar.
Kæru hátíðargestir.
Gleðilega hátíð !
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst