Unnið er að gerð nýrra útboðsgagna vegna uppbyggingar og reksturs heilsuræktar við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja. Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, segir í svari við fyrirspurn Eyjafrétta að búist sé við því að útboðið verði auglýst „öðru hvoru megin við áramótin“.
Samkvæmt Jóni er ráðgjafi bæjarins nú að vinna að útboðsgögnum sem þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur þar sem um sérleyfissamning sé að ræða.
„Ráðgjafi er að vinna að útboðsgögnum fyrir uppbyggingu- og rekstur heilsuræktar við Íþróttamiðstöðina en ég á von á því að útboðið fari af stað öðru hvoru megin við áramótin,“ segir Jón.
Framkvæmdir standa nú yfir í líkamsræktarsalnum við Íþróttamiðstöðina. Jón staðfestir að þær séu alfarið á kostnað leigutaka og að bærinn hafi því ekki upplýsingar um kostnað eða umfang.
„Framkvæmdirnar eru alfarið á kostnað þess sem leigir þann sal nú. Framkvæmdirnar eru með okkar samþykki enda nýtast þær okkur hvernig svo sem útboðið fer,“ segir hann.
Eyjafréttir spurðu Jón einnig hvers vegna ekki var ákveðið að framkvæma viðhald í innilauginni yfir sumarið þegar skólasund liggur niðri. Jón segir að ástand kjallarans hafi verið orðið þannig að ekki þótti ábyrgt að bíða.
„Það er enginn góður tími varðandi framkvæmdir við innilaugina. Ástandið var komið á það stig að betra var að fara sem fyrst í framkvæmdir í stað þess að taka áhættu,“ segir hann og bætir við að mögulegar bilanir hefðu getað kallað á enn lengri lokun.
Fyrri umfjöllun Eyjafrétta um málið má finna hér:
Rekstur heilsuræktar í formlegt útboð (25. júlí 2025)
Í þeirri frétt var fjallað um að fyrra útboð hafði verið kært til Kærunefndar útboðsmála, sem stöðvaði samningsgerð. Í kjölfarið ákvað bæjarráð að hætta þeirri leið og undirbúa nýtt formlegt útboð.




















Kostnaður við Landeyjahöfn kominn yfir 10 milljarða
Bað pabba sinn um hjálp – hinn dreymdi um stærra heimili
Minnihlutinn varar við þrengingum – meirihlutinn…
Töluvert ráðrúm til bætingar og vaxtar í Vestmannaeyjum
Dýravinafélagið bauð til notalegrar útivistar á aðventunni
Göfug orkuskipti í orði – öfug orkuskipti í verkiSkráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst