Áhugi á handavinnu breyttist í litríkt ævintýri þegar Ásdís Björk Jónsdóttir og Elfar B. Guðmundsson stofnuðu Hex Hex Dyeworks, sem framleiðir handlitað garn úr völdum efnum. Næsta laugardag opna þau litla pop-up búð í anddyri Safnahússins, þar sem gestir geta kynnt sér garnið og handverkið á bak við það.
Hex Hex Dyeworks er lítið fjölskyldufyrirtæki staðsett á Stokkseyri. Fyrirtækið sérhæfir sig í handlituðu garni sem er innflutt frá Suður-Ameríku, að mestu leyti frá Perú, og leggur áherslu á ábyrgð og umhverfisvitund í framleiðslu.
Verkefnið hófst sem lítið áhugamál, en þróaðist smám saman í fjölbreytt og skapandi fyrirtæki. Ásdís, sem hefur haft mikinn áhuga á handavinnu í fjölda ára, segir prjón hafa verið sína helstu slökun síðustu tíu ár.
„Fyrir mér opnaðist nýr heimur þegar ég uppgötvaði að ég gæti sjálf búið til liti til að prjóna úr,“ segir hún. „Nú gefst fleirum tækifæri til að prófa garnið og njóta litanna.“
Í framleiðslunni er lögð áhersla á ábyrgð og umhverfisvæn vinnubrögð. Garn er valið frá framleiðendum sem huga að velferð dýranna, og reynt er að halda ferlinu eins náttúrulegu og vistvænu og mögulegt er. Hex Hex Dyeworks er rekið af hjónunum Ásdísi og Elfari, sem segja mikla ánægju að fá að deila ástríðu sinni með öðrum.
„Við verðum með litla pop-up búð í anddyri Safnahússins næsta laugardag,“ segja þau. „Þar tökum við á móti öllum sem vilja sjá fallega garnið okkar, spjalla, skoða verkefni – hvort sem þau eru í vinnslu eða tilbúin – og fá ráð eða aðstoð við að finna rétta garnið fyrir sig.“
📍 Pop-up búð Hex Hex Dyeworks
🗓 Laugardagur 25. október
⏰ Kl. 12:00–15:00
📌 Anddyri Safnahússins, Vestmannaeyjum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst