Fjölskylda?
Gift Hallgrími Steinssyni, eigum þrjár dætur: Unni Birnu, Hrafnhildi og Önnu Steinunni, tvo tengdasyni: Guðmund og Egil, og eitt barnabarn, hana Aþenu Mey.
Hvernig leggjast jólin í þig?
Rosalega vel, við verðum öll í Eyjum um jólin en vanalega höfum við verið í Reykjavík á jólunum.
Fer mikill undirbúningur í jólin hjá þér?
Hingað til hefur undirbúningur ekki verið mikill fyrir jól því við höfum alltaf fjölskyldan, nema einu sinni, verið í Reykjavík hjá tengdaforeldrunum. Auðvitað þetta hefðbundna eins og jólaskreyta og baka jólasmákökur og kaupa pakka en við höfum alveg sloppið við eldamennskuna sem mun koma sterk inn þetta árið.
Ertu með einhverja sérstaka hefð á jólunum?
Það er möndlugrautur hjá mömmu á aðfangadag en hún hefur oft fært hann til því við höfum ekki verið. Núna verður þetta hefðbundið, möndlugrautur í hádeginu hjá mömmu og pabba og síðan hittumst við aftur um kvöldið, borðum saman og opnum pakka. Við hittumst síðan aftur á jóladag og borðum hangikjöt og síðan er púkkið á sínum stað um jólin. Gamlárskvöld er síðan heima hjá okkur eins og alltaf, þá hittumst við stórfjölskyldan eftir mat og horfum á skaupið og skjótum upp flugeldum. Síðan kíkja oft vinir til okkar eftir miðnætti.
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
Er nú ekki mikil jólalagakona, ætli það sé ekki Ó helga nótt.
Hvað er í matinn hjá þér/ykkur á aðfangadag?
Það verður tvírétta hjá mömmu og pabba: hamborgarhryggur og síðan fyrir þá sem ekki þola vel reyktan mat hefðbundinn hryggur.
Hvað stendur upp úr á jólunum?
Samvera með fjölskyldunni, ég hlakka mikið til þessara jóla þar sem öll fjölskyldan verður á Eyjunni og það verður sérstaklega gaman að upplifa jólin með barnabarninu sem er 17 mánaða og allt svo spennandi og skemmtilegt. Ég óska ykkar allra gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst