Aðalfundur Taflfélags Vestmannaeyja var haldinn í skákheimili TV 1. júní sl. Í skýrslu stjórnar kom fram að helstu póstar í starfsemi félagsins voru Skákþing Vestmannaeyja 2023 , skákkennsla fyrir krakka í Grunnskóla Vm. og þátttaka í Íslandsmóti skákfélags 2022-2023. TV sendi þrjár sex manna sveitir á Íslandsmót skákfélaga sem fram fór í Fjölnishöllinni í
Grafarvogi í okt. 2022 og mars 2023 í 1., 3. og 4. deild. Alls komu um 30 félagar TV að þessu verkefni. Skáksveit TV var efst í 1. deild og færist upp í úrvalsdeild í haust. Í úrvalsdeild eru sex sveitir og flestar eru með einn eða fleiri stórmeistara innanborðs og eru átta keppendur í hverri sveit. Í þessu felst mikil áskorun sem krefst þess að TV styrki lið sitt. Þorsteinn Þorsteinsson skákmeistari er liðsstjóri
og hefur sveitin undir hans stjórn náð mjög góðum árangri og myndað samstillta liðsheild. Liðstjórar TV í 3. og 4. deild eru Ólafur Hermannsson, Hallgrímur Steinsson og Arnar Sigurmundsson.
Hallgrímur Steinsson sem verið hefur formaður TV frá 2021 gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Eyjum var kjörinn formaður TV og aðrir í stjórn eru Hallgrímur Steinsson, Guðgeir Jónsson, Sæmundur Einarsson og Sigurjón Þorkelsson. Skoðunarmaður TV er Ægir Páll Friðbertsson. Karl Gauti var formaður TV 2007-2013 og hefur verið virkur í starfsemi félagsins um langt árabil.
TV mun standa fyrir 50 ára goslokamóti í atskák laugardaginn 9. sept. nk. og fer mótið fram á opna svæðinu í Þekkingarsetri Vm. að Ægisgötu 2. Tefldar verða átta umferðir, umhugsunartími er 15 mín. á skák + 5 sek. á hvern leik. Aðstaða til mótshalds er mjög glæsileg og voru þar haldin tvö fjölmenn minningarmót á vegum TV , Beddamótið 2019 og Pallamótið 2021. Reiknað er með góðri þátttöku keppenda víðs vegar af landinu en mótið hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 18.00 með verðlaunaafhendingu. Senn verður opnað fyrir skráningu keppenda á mótið á skák.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst