Djúp lægð gekk yfir sunnan vert landið í morgun, en Veðurstofan hafði gefið út gular viðvaranir. Veðrið er blessunarlega dottið niður í Eyjum þegar þessi frétt er skrifuð. Í facebook-færslu Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings segir að heilt yfir höfum við haft heppnina með okkur að lægðin djúpa hafi ekki komið nær landi en raun ber vitni.
Samt sem áður hvessti verulega syðst á landinu og var víða mjög snarpur vindur.
„Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var langt frá því að vera stætt. Þar mældist meðalvindhraði 40,5 m/s upp úr kl. 9 í morgun, en slíkar tölur hafa ekki sést þar í þrjú ár.”
Til samanburðar mældust 45,0 m/s í meðalvindi í miklum veðurofsa 14. febrúar 2020, veðri sem margir muna enn vel. Að sögn Einars er þó langt í að met á Stórhöfða falli. Vindmetið á stöðinni er 55,6 m/s, frá 23. október 1963, þegar ógurlegt skaðaveður gekk yfir. Mælingar frá þeim tíma eru þó taldar háðar meiri óvissu en þær sem síðar hafa verið gerðar.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst