Flutningaskipið Dettifoss missti gám í sjóinn í óveðri undan Suðurlandi snemma í gærmorgun, skömmu eftir að skipið lagði af stað frá Reykjavík áleiðis til Reyðarfjarðar. Gámurinn reyndist vera tómur og var Landhelgisgæslunni gert viðvart strax í kjölfarið.
Frá þessu er greint á vef Austurfréttar, þar sem fram kemur að atvikið hafi átt sér stað í miklu hvassviðri suður af landinu, á milli Vestmannaeyja og Víkur í Mýrdal. Að sögn fulltrúa Eimskips urðu engar skemmdir á skipinu og engin hætta skapaðist fyrir áhöfn.
Vindhraði á svæðinu var sagður hafa náð allt að 40 metrum á sekúndu þegar gámurinn fór fyrir borð. Skipið hélt þó áfram för sinni samkvæmt áætlun og sigldi til Reyðarfjarðar áður en haldið var áfram til Þórshafnar.
Landhelgisgæslan hefur haft þyrlu á lofti við leit að gámnum og sjófarendur hafa verið varaðir við og hvattir til að sýna sérstaka aðgát á svæðinu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst