Næsta tölublað Eyjafrétta kemur út í dag og að vanda er fjölbreytt efni í blaðinu þar sem lesendur fá innsýn í mannlíf, framkvæmdir, atvinnulíf og menningu í Vestmannaeyjum.
Í blaðinu er m.a. fjallað um FÍV og sterka stöðu verkmenntunar í Eyjum, auk þess sem Safnahelgin sem fram undan er fær góðan sess. Þá er sagt frá framkvæmdum á Heimakletti, og í ítarlegu viðtali segir Natali Oson frá því þegar hún flúði stríðið í Úkraínu og flutti til Vestmannaeyja.
Við tökum einnig púlsinn á atvinnulífinu – þar er m.a. fjallað um Laxey, sem nálgast nú óðfluga næsta stóra áfangann, og við kynnum okkur starfsemi fyrirtækjanna HS Vélaverks, Brinks, Vélfangs og Vélafls.
Í stjórnmálahluta blaðsins lítur Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, yfir kjörtímabilið, uppbyggingu og áskoranir bæjarstjórnar.
Af öðrum viðtölum, þá ræðir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets meðal annars um orkumál og framtíðarsýn fyrirtækisins. Þá segjum við frá Barboru Gorová, sem flutti frá Tékklandi til Vestmannaeyja og Ásmundur Friðriksson ræðir við Rósönnu Ingólfsdóttur Welding í áhugaverðu samtali.
Í íþróttahlutanum er að finna viðtal við Tómas Bent Magnússon, sem nýverið gekk til liðs við Hearts í skosku úrvalsdeildinni, auk þess sem við kynnum Íþróttamann mánaðarins.
Lesendur fá einnig að lesa kafla úr glænýrri endurminningabók Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa frá Eyjum. Þá eru Sara og Una í skemmtilegu viðtali og gervigreindin fær sinn sess í blaðinu – ásamt ýmsu öðru forvitnilegu efni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Eyjafréttum hér á vefnum, en blaðið fæst einnig í lausasölu í Tvistinum og á Kletti. Hér geta áskrifendur nálgast vefútgáfuna.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst