Í tölum um innflutning til Noregs kemur skýrt fram að innflutningur á þorski frá öðrum veiðum en norska skipa, hefur stóraukist. Reyndar á það líka við um fleiri fisktegundir en aukningin er langmest í innflutningi þorsks.
Á myndinni hér að neðan má sjá innflutning Norðmanna á þorski eftir mánuðum og árum, síðan 2019. Mikil aukning er sjáanleg sérstaklega á síðasta ári.
Ljóst er að þessi aukning kemur að langmestu leyti frá Rússlandi. Rússnesk fiskiskip eru undanþegin hafnbanni í Noregi og fá þar þjónustu. Þau landa því talsvert miklu af fiski í Noregi sem fer þar til vinnslu og til útflutnings.
Nýlegar tölur sýna norskur fiskiðnaður flutti inn um 30.000 tonn af þorski á síðasta ári. Það er um helmingur af því sem Rússar lönduðu í Noregi. Þetta kemur fram í umfjöllun Fiskeribladet frá 5. febrúar sl.
Þar af kaupa Norðmenn þorsk til vinnslu og útflutnings af Rússum fyrir rúma milljarð norskra króna. Það samsvarar rúmlega 12,7 milljörðum íslenskra króna.
Þetta er auðvitað umdeilt í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu og viðskiptaþvingana og stöðu Norðmanna gagnvart þeim málum. Á eftir olíu og korni, er fiskur þriðji verðmætasti vöruútflutningsflokkur Rússa. Á árinu 2023 voru alls 98.000 tonn af fiski – öllum tegundum – flutt inn frá Rússlandi til landa Evrópusambandsins.
Rússneskur fiskur sem fluttur er til Evrópusambandsins ber 12% toll og fiskur sem fluttur er til Bretlands ber 35% toll. Þetta kemur fram í umfjöllun norska sjávarútvegsmiðilsins Fiskeribladet. Frá því að innrás Rússa hófst árið 2022 hefur fiskinnflutningur frá Rússlandi til ESB aukist um 19%, skv. heimildum frá norska netmiðlinum Barents Observer. Frá því í mars 2022 til september 2024, hafa lönd ESB flutt inn rússneskan fisk að verðmæti 23,9 milljarða norska króna, það samsvarar tæpum 300 milljörðum ISK. Til samanburðar var verðmæti allra útfluttra sjávarafurða frá Íslandi 353 milljarðar ISK.
Fiskur sem Norðmenn kaupa af Rússum, flytja inn til Noregs og svo aftur út til Evrópusambandsins ber þó engan toll. Norðmenn leggja ekki toll á innflutning frá Rússlandi og njóta svo tollfrelsis við innflutning til ESB. Þau tollafríðindi hafa Norðmenn í gegnum GATT samkomulagið við ESB. Þetta skekkir vissulega samkeppnisstöðu þeirra gagnvart framleiðendum sem starfa innan ESB.
Einnig er umhugsunarvert hvert fiskurinn fer á endanum og hver upprunamerking hans er þá. Á endanum fær fiskurinn upprunamerkingu eftir því hvar vinnslu hans og pökkun lýkur. Rússneskur fiskur er því ekki merktur rússneskur eftir að Norðmenn hafa keypt hann. Það er því sannarlega um hvítþvott að ræða, eins og þessu er háttað.
Oft er fiskur markaðssettur eftir uppruna, eitt skýrasta dæmið um það eru saltfiskmarkaðir í S-Evrópu, Spáni, Portúgal, Ítalíu og Grikklandi. Á þeim mörkuðum nýtur íslenskur fiskur oftast nær yfirburðastöðu en í harðri samkeppni við norskan fisk. Það er því mikið hagsmunamál Íslendinga að upprunamerkingar Norðmanna séu réttar og samkeppnin sanngjörn. Sá þorskur sem Norðmenn kaupa frá Rússlandi og flytja inn til ESB er augljóslega í beinni samkeppni við annan þorsk, m.a. frá Íslandi.
Portúgal er það land heimsins sem flytur mest inn af þorskafurðum og kemur langmest af þeim frá Noregi. Þar hafa framleiðendur, dreifingaraðilar og aðrir hagsmunaaðilar verulegar áhyggjur af þessu háttalagi Norðmanna.
Luisa Melo er framkvæmdastjóri Esbal í Ílhavo í Portúgal. Esbal er saltfiskframleiðandi, framleiðir saltaðar þorskafurðir sem seldar eru í Portúgal. Hún er jafnframt formaður samtaka portúgalskra saltfiskframleiðenda.
Luisa segir að verulega halli á samkeppnisstöðu portúgalskra framleiðenda gagnvart innflutningi frá Noregi, þegar Norðmenn geti keypt og selt rússneskan þorsk tollfrjálst, á meðan portúgalskir framleiðendur þurfa að greiða 12% toll. „Staðreyndin er að 80% af þorskframboði úr Atlantshafi kemur frá Noregi, Rússlandi og Íslandi. Ef Norðmenn hafa aðstöðu umfram aðra til að kaupa og selja þorsk, þá skapar það markaðsbrest. Þetta fer saman með minna heildarframboði þorsks, að Norðmenn hafa þessa yfirburðastöðu í samkeppni við portúgalska framleiðendur, bæði á portúgalska markaðnum og í útflutningi til annarra landa. Staðan sem þetta skapar er mjög erfið.”
„Siðferðilega er þetta óskiljanlegt, frá okkar sjónarhorni, þegar litið er til NATO – aðildar Norðmanna og sterks stuðnings þeirra við Úkraínu. Samtímis er stefna þeirra gagnvart löndunum rússneskra skipa beinn stuðningur við stríðsrekstur Rússa.“
Að sögn Luisu er staða saltfiskframleiðenda í Portúgal erfið og rekja megi ástæður þess að miklu leyti til aðgerða Norðmanna, samkeppni við þá er skökk og ósanngjörn, framboð á þorski hefur dregist mikið saman samhliða kvótasamdrætti í Brentshafi og þorskverð hafa hækkað mikið. Hún segir Norðmenn hafa hækkað verð á sínum þorski mikið og verð frá Íslandi hafi hækkað í kjölfarið. „Samanlögð áhrif allra þessara þátta skapa nú erfiða tímar og eru mikið áhyggjuefni fyrir iðnaðinn í Portúgal. Verð á þorskafurðum hafa farið hækkandi síðastliðin fjögur ár og markaðurinn stendur ekki undir þeim verðum sem við sjáum nú. Neyslan mun dragast mikið saman og iðnaðurinn þarf að aðlagast því.“
Luisa segir að það eina rétta af hálfu Norðmanna væri að setja sömu tolla gagnvart Rússum og ESB hefur gert. Það myndi skapa sanngjarnari samkeppni og viðhalda viðskiptaþrýstingi á Rússa.
Í vikunni sendu Samtök portúgalskra þorskframleiðenda, Associação dos Industriais do Bacalhau (AIB) frá sér yfirlýsingu þar sem tollfrjáls innflutningur rússnesks þorsks í gegnum Noreg er fordæmdur og hörmuð sú markaðsskekkja slíkt það skapar. Í yfirlýsingunni er kallað eftir því að tafarlaust verði gripið til aðgerða og telur AIB brýnt að Evrópusambandið efli eftirlit og innleiði strangari reglur um þorsk sem unninn er í Noregi til að tryggja árangur þvingunaraðgerða sem Rússar sæta.
André Ciríaco er framkvæmdastjóri Feijomar, saltfiskframleiðanda í Gafanha da Nazaré, nálægt Aveiro í Portúgal. Hann hefur fylgst náið með þróun mála varðandi þorskinnflutning Norðmanna og áhrifum hans á saltfiskiðnaðinn í Portúgal.
„Sniðganga Norðmanna á tollum ESB, og að flytja út rússneskan þorsk sem norskan, er eins konar viðskiptaþvætti. Það gerir takmarkanir ESB á innflutningi Rússa vegna refsiaðgerða gagnslausar. Það er afar slæmt að sjá að ESB bregst ekki við þessum veruleika.
Frá viðskiptalegu sjónarhorni skapar tollasniðgangan ósanngjarna samkeppni fyrir fyrirtæki í ESB, með 13% kostnaðarauka vegna tolla. Þetta skaðar mjög innlendan iðnað í löndum eins og Portúgal, sem mjög eru háð innflutningi á þorski,“ segir André í samtali við Eyjafréttir.
Frá 2021 til 2025 hafa þorskkvótar í Atlantshafi verið skertir um alls 60%. „Þetta þýðir að jafnvel þótt sex af hverjum tíu þorskvinnslum loki, þá væri enn næg vinnslugeta í þeim sem eftir væru. Til að auka mjög á vandann sem þetta skapar, höfum við nú líka þetta stóra mál“ — tollahagræði Noregs. Mismunur uppá 13%, vegna tolla, er umtalsvert hærri en meðalframlegð í saltfiskvinnslu. Það hefur afgerandi áhrif á afkomu portúgalska þorskiðnaðarins. Þar sem þorskframboð í Portúgal er mjög háð innflutningi er óvissan mikil.“
André spáir því að atburðarásin verði eftirfarandi:
Þetta eigi þó ekki aðeins við í Portúgal heldur verði sama þróun á öðrum mörkuðum innan ESB, þar sem Norðmenn eru fyrirferðarmiklir. Í þessu ferli öllu munu Norðmenn ná vaxandi tökum á mörkuðum sjávarafurða, bæði í Portúgal og víðar innan ESB.
„Norsk stjórnvöld ættu að koma í veg fyrir að þarlend fyrirtæki notfæri sér glufur sem þessar til að skapa sér ósanngjarna samkeppnisstöðu. Að öðrum kosti er hætta á alvarlegum viðskiptadeilum Noregs og ESB.
ESB ætti að hefja heildarrannsókn á tollasniðgöngu Norðmanna og í framhaldi af því að endurskoða viðskiptasamninga sína við Noreg, til að koma í veg fyrir ósanngjarna samkeppni. Meginreglan ætti að vera jafnræði í tollamálum. Annað hvort að aflétta 13% tollinum á rússneskan þorsk inn til ESB eða beita sömu tollum á þorsk sem unninn er í Noregi ef uppruni hans er rússneskur.
Portúgal ætti að tala fyrir sanngjarnri viðskiptastefnu. Portúgölsk stjórnvöld og hagsmunahópar verða að þrýsta á ESB að jafna tolla til að tryggja sanngjarna samkeppni.“
Augljóslega hallar þessi ójafna samkeppnisstaða Norðmanna mjög á hagsmuni Íslendinga. Margir mikilvægustu markaðir fyrir íslenskar sjávarafurðir eru innan ESB. Á sama hátt og portúgalskir saltfiskframleiðendur lýsa að framan, skerðist staða Íslendinga gagnvart Norðmönnum. Það á við um markaði víða, fyrir alla afurðaflokka, ferskar afurðir, frystar, saltaðar o.fl.. Auk ójafnrar samkeppnisstöðu Íslendinga, er jafnframt grafið undan viðskipavinum þeirra erlendis.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst