Um áramótin munu HS Veitur breyta fyrirkomulagi verðskrár hitaveitunnar í Vestmannaeyjum úr magnverðskrá í orkuverðskrá. Breytingin er gerð í þágu heimila og atvinnulífs í Vestmannaeyjum með það að markmiði að tryggja sanngjarnari dreifingu kostnaðar, hvetja til orkunýtni og endurspegla betur raunverulega notkun hvers og eins.
Með breytingunni verður kostnaður viðskiptavina óháðari því framrásarhitastigi sem er á vatninu þegar það berst til þeirra auk þess sem virði er sett á þann varma sem skilað er til baka til endurnýtingar í varmastöð. Munu viðskiptavinir greiða fyrir þá orku sem þeir nýta úr heita vatninu í stað þess að magnið sé eini ráðandi þátturinn líkt og áður.
Sjálf breytingin úr magnverðskrá í orkuverðskrá hefur ekki áhrif til hækkunar eða lækkunar á heildartekjum hitaveitunnar en hún hefur mismunandi áhrif á kostnað notenda eftir notkun þeirra. Nánari upplýsingar um nýja fyrirkomulagið er að finna á heimasíðu HS Veitna.
Landsnet hefur tilkynnt að frá og með 1. janúar 2026 verði raforkunotendur á skerðanlegum flutningi í Vestmannaeyjum færðir yfir á almenna gjaldskrá. Breytingin er er sögð gerð vegna tilkomu tveggja nýrra neðansjávarstrengja til Vestmannaeyja sem nú eru komnir í rekstur.
Í kjölfar þess hækkar flutningskostnaður raforku til hitaveitunnar í Vestmannaeyjum úr 53,4 milljónum króna í 169,6 milljónir króna, sem jafngildir 317% hækkun á greiðslum til Landsnets. Um er að ræða verulega breytingu í rekstrarumhverfi hitaveitunnar þar sem framleiðslukostnaður heits vatns í Vestmannaeyjum byggir nær alfarið á raforku.
Þessi hækkun flutningskostnaðar veldur 11,32% hækkun á verðskrá heits vatns í Vestmannaeyjum um áramótin. Þar ofan á bætist 2,37% almenn verðlagsleiðrétting þegar tekið hefur verið tillit til niðurfellingar á jöfnunargjaldi til fjarvarmaveitna sem Alþingi samþykkti þann 18. desember. Frá 1. janúar 2026 hækkar verð á heitu vatni því um 13,69% í Vestmannaeyjum.
Uppfærðri verðskrá nú um áramótin er þannig ætlað að mæta hækkuðum flutningskostnaði Landsnets og tryggja áframhaldandi afhendingaröryggi og rekstrargrundvöll hitaveitunnar, ásamt því að innleiða sanngjarnari og nútímalegri verðskrá sem tekur mið af því að um lokað hitaveitukerfi er að ræða þar sem varmi í bakrás er endurnýttur.
Áætluð hækkun á meðal heimili nemur um 1.500 krónum á mánuði að meðaltali að teknu tilliti til væntanlegra niðurgreiðslna, segir í tilkynningu frá HS Veitum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst