„Ég átti inni boð hjá Kolbeini Tuma Daðasyni, fréttastjóra fréttastofu Sýnar að líta við hjá honum á Sýn. Ég og barnabarnið Emil Sölvi fórum á Sýn í gær og var mjög skemmtilegt að sjá fullt af útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum, allt á einum stað,“ segir Óskar Pétur, ljósmyndari Eyjafrétta sem brá sér í kaupstaðarferð um helgina.
„Kristján Már Unnarsson, fréttamaðurinn margreyndi rabbaði við okkur og sagði mér að hann hefði komið til Eyja fyrir nokkrum árum og gert nokkur fréttaskot í leiðinni. – Þetta var á þeim tíma þegar Eyjafréttir afhentu Fréttapýramídann og þeir voru svo ánægðir með fréttirnar mínar að þeir afhentu mér Fréttapýramída,“ hafði Óskar Pétur eftir Kristjáni Má sem var einn fyrirlesara á 50 ára afmælisráðstefnu Eyjafrétta á síðasta ári um stöðu héraðsfréttamiðla.
„Þó Kristján Már sé einu eða tveimur árum yngri en ég var hann samt eins og ellilífeyrisþegi miðað við allt unga fólkið sem vinnur hjá fréttastofu Sýnar,“ segir Óskar sem mætti með myndavélina.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst