Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Janus Guðlaugsson, forsvarsmaður Janusar heilsueflingar, hafa undirritað nýjan samstarfssamning um verkefnið Fjölþætt heilsuefling 60+ í Vestmannaeyjum – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa.
Samstarfið, sem hófst árið 2019, hefur skilað afar góðum árangri og mikilli ánægju meðal þátttakenda. Með nýja samningnum er verkefnið nú opið fyrir íbúa 60 ára og eldri en áður miðaðist það við 65 ára og eldri, að því er segir í frétt á heimasíðu bæjaryfirvalda.
Þar segir jafnframt að starfsfólk Janusar heilsueflingar sjái jafnframt um þjálfun fyrir notendur Bjargs dagdvalar og leggur verkefnið áherslu á hreyfingu, styrk og þol auk fræðslu um næringu og heilsutengda þætti.
Á fyrsta stigi verkefnisins fá þátttakendur að jafnaði þrjár þjálfunarstundir á viku með sérhæfðum heilsuþjálfara, auk einstaklingsmiðaðrar áætlunar um daglega hreyfingu byggða á alþjóðlegum viðmiðum.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta skráð sig á heimasíðu Janusar heilsueflingar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst