Skattabreytingar á árinu 2026
Peninga

Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar sem snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Tekið verður upp kílómetragjald á öll ökutæki, samhliða því að olíu- og bensíngjöld verða felld niður. Þá verða gerðar ýmsar verðlagsuppfærslur á gjöldum auk þess sem vörugjöld af ökutækjum breytast talsvert. Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa á vef Alþingis.

Tekjuskattur einstaklinga

Samkvæmt lögum um tekjuskatt hækka persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga í upphafi hvers árs sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættri hækkun vegna framleiðnivaxtar. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir tekjuárið 2027. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 4,5% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 5,5%. Tekjuskattsprósentan er óbreytt frá fyrra ári sem og hámarksútsvar sveitarfélaga. Vegið meðal útsvar reiknast út frá útsvarsprósentu sveitarfélaga á árinu 2026 að teknu tilliti til tekjuskattsstofns hvers sveitarfélags og verður óbreytt á milli ára eða 14,94%.

Á tekjuárinu 2026 fellur brott heimild hjóna og sambúðaraðila til að samnýta annað og þriðja þrep, í þeim tilvikum ef annar aðilinn er með tekjuskattsstofn í þriðja þrepi en hinn ekki.

Skattleysismörk barna yngri en 16 ára hækka úr 180.000 kr. í 300.000 kr. en þau hafa verið óbreytt frá árinu 2014. Tekjur barna umfram 300.000 kr. bera 6% skatthlutfall (4% tekjuskatt og 2% útsvar).

Í eftirfarandi töflu má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk í kr. fyrir árin 2025 og 2026.

Tekjuskattur einstaklinga
í staðgreiðslu
2025 2026
1. þrep 31,49%
(þar af 14,94% útsvar)
31,49%
(þar af 14,94% útsvar)
2. þrep 37,99%
(þar af 14,94% útsvar)
37,99%
(þar af 14,94% útsvar)
3. þrep 46,29%
(þar af 14,94% útsvar)
46,29%
(þar af 14,94% útsvar)

 

Tekjuskattur einstaklinga 2025 2026
Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði
Þrepamörk upp í miðþrep 5.664.062 472.005 5.977.470 498.122
Þrepamörk upp í háþrep 15.901.523 1.325.127 16.781.397 1.398.450
Persónuafsláttur 824.288 68.691 869.898 72.492
Skattleysismörk tekjuskattsstofns 2.617.618 218.136 2.762.458 230.206
Skattleysismörk launa* 2.726.686 227.225 2.877.560 239.798

*að teknu tilliti til lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð.

Tryggingagjald

Engar breytingar verða á tryggingagjaldi frá fyrra ári og verða eftir sem áður:

Tryggingagjald 2026
Almennt tryggingagjald 4,90%
Atvinnutryggingagjald 1,35%
Gjald í Ábyrgðasjóð launa
vegna gjaldþrota
0,05%
Markaðsgjald 0,05%
Tryggingagjald samtals 6,35%

Fjármagnstekjuskattur

Um áramótin taka gildi tvær breytingar á fjármagnstekjuskatti. Annars vegar verður skattlagningu leigutekna einstaklinga af íbúðarhúsnæði breytt þannig að frítekjumark leigutekna lækkar úr 50% í 25%, sem leiðir til þess að virk skattprósenta leigutekna af íbúðarhúsnæði verður 16,5%. Hins vegar verður sú heimild felld brott að nýta megi afgangs persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts við álagningu. Breytingarnar hafa áhrif á tekjur ársins 2026, en áhrif þeirra koma ekki fram fyrr en við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið eftir.

Tekjuskattur lögaðila

Engar breytingar verða á tekjuskatti lögaðila frá fyrra ári.

Barnabætur

Tímabundnar útreikningsreglur barnabóta verða framlengdar um eitt ár sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verða þær sömu á árinu 2026 og á árinu 2025.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta 2026 Einstætt foreldri Foreldrar í sambúð
Skerðingarmörk 5.844.000 kr. 11.688.000 kr.
Fjárhæð með hverju barni 514.500 kr. 345.000 kr.
Viðbótarbarnabætur með börnum yngri en 7 ára 130.000 kr. 130.000 kr.
Skerðingarhlutfall með hverju barni 4% 4%

Vaxtabætur

Engar breytingar verða á kerfi vaxtabóta frá fyrra ári og verða þær í seinasta skipti greiddar út á árinu 2026 þar sem ný og markvissari úrræði hafa tekið við.

Nefskattar

Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækka um 3,7% um áramótin sem er nokkuð undir verðbólgu ársins. Útvarpsgjald verður eftir breytinguna 22.200 kr. og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 14.614 kr. Gjöldin eru lögð á einstaklinga 16-69 ára sem eru með tekjustofn yfir skattleysismörkum. Undanþegnir gjöldunum eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Nefskattar 2025 2026
Útvarpsgjald 21.400 kr. 22.200 kr.
Framkvæmdasjóður aldraðra 14.093 kr. 14.614 kr.

Erfðafjárskattur

Skattfrelsismörk erfðafjárskatts taka árlega breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs og hækka því úr 6.498.129 kr. í 6.789.790 kr. Erfðafjárskattur er greiddur af hreinni eign dánarbús umfram skattfrelsismörk og helst skatthlutfallið óbreytt í 10%.

Erfðafjárskattur 2025 2026
Skatthlutfall 10% 10%
Skattfrelsismörk 6.498.129 kr. 6.789.790 kr.

Krónutölugjöld á ökutæki og eldsneyti

Um áramótin tekur gildi kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja og eldsneytis þar sem tekið er upp kílómetragjald vegna notkunar vega. Jafnframt falla niður vörugjöld á eldsneyti, almennt vörugjald, sérstakt vörugjald og olíugjald. Auk þess hækkar kolefnisgjald um u.þ.b. 25% að teknu tilliti til jöfnunar orkuinnihalds orkugjafa auk 3,7% verðlagsbreytinga. Nýja fyrirkomulagið felur í sér að kílómetragjöld á rafmagnsbifreiðar, tengiltvinnbifreiðar og ökutæki yfir 10 tonnum falla brott en í staðin verður tekið upp heildstætt kerfi kílómetragjalds á allar bifreiðar. Bifreiðagjald hækkar um 3,7% til samræmis við verðlagsforsendur fjárlaga.

Kílómetragjald (kr./km.) 2025 2026
Kílómetragjald fólksbíla 0 6,95
Kílómetragjald hreinorku- og tengiltvinnbifreið 6/2 0
Bensín- og olíugjöld (kr./ltr.) 2025 2026
Almennt vörugjald á bensín 34,55 0
Sérstakt vörugjald á bensín 55,65 0
Olíugjald 77,30 0
Kolefnisgjald 2025 2026
Gas- og dísilolía (kr./ltr.) 21,40 28,30
Bensín (kr./ltr.) 18,60 24,25
Brennsluolía (kr./kg.) 26,20 33,10
Jarðolíugas (kr./kg.) 23,25 28,45
Bifreiðagjald (kr.)* 2025 2026
Grunngjald bifreið < 3.500 kg. 20.500/181 21.260/188
Grunngjald bifreið > 3.500 kg. 71.160/2,99/111.340 73.795/3,10/115.460

*Sýnt er grunngjald á hvert ökutæki, einingagjald á hvert gr. umfram 168 gr. COog hámarksgrunngjald. Hér er miðað við skráða losun skv. evrópsku aksturslotunni.

Krónutölugjöld á áfengi, tóbak o.fl.

Krónutölugjöld hækka um 3,7% um áramótin sem er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga.  Þar sem verðbólga ársins er 4,5% og því hærri en verðlagsforsendur fjárlaga munu krónutölugjöldin lækka að raunvirði milli ára. Breytingar á helstu krónutölugjöldum milli áranna 2025 og 2026 eru sýndar í eftirfarandi töflu.

Helstu krónutölugjöld 2025 2026
Áfengisgjald (kr./cl.)    
Bjór 150,85 156,45
Léttvín 137,40 142,50
Sterkt vín 185,95 192,85
Tóbaksgjald    
Vindlingar (kr./pk.) 619,35 642,25
Neftóbak (kr./gr.) 34,45 35,70
Annað (kr./gr.) 34,45 35,70
Nikótíngjald (styrkleiki nikótíns)    
1 mg/g – 8 mg/g 8,00 8,30
8,1 mg/g – 12 mg/g 12,00 12,45
12,1 mg/g – 16 mg/g 15,00 15,55
16,1 mg/g – 20 mg/g 20,00 20,75
Vökvar fyrir rafrettur < 12 mg/ml 40,00 41,50
Vökvar fyrir rafrettur > 12 mg/ml 60,00 62,20

Vörugjöld á ökutæki

Gerðar eru breytingar á vörugjöldum á ökutæki þar sem reikniformúlum er breytt og undanþágur felldar út. Í þeim breytingum felst að vörugjöld á rafmagnsbifreiðar eru felld brott. Lágmarksvörugjöld eru hækkuð úr 5% í 10% og hámarksgjaldið er hækkað úr 65% í 70%. Auk þess eru stuðlum útreikninga vörugjaldsins breytt svo nú skal vörugjaldið nema  0,34% á hvert gramm skráðrar losunar umfram 30 grömm í stað 0,28% á hvert g/km umfram 85 grömm áður.

Innviðagjald á skemmtiferðaskip í millilandasiglingum

Skemmtiferðaskip í millilandasiglingum greiða innviðagjald fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skip dvelur innan íslenskrar lögsögu. Gjaldið er 2.500 kr. á árinu 2025 og mun lækka niður í 1.600 kr. árið 2026.

Innviðagjald á skemmtiferðaskip í millilandasiglingum 2025 2026
Innviðagjald fyrir hvern farþega 2.500 1.600 kr.

Veiðigjald

Fyrr á árinu voru samþykktar breytingar er varða útreikning á aflaverðmæti í reiknistofni veiðigjalds. Um er að ræða leiðréttingu sem gerð er í því skyni að veiðigjaldið endurspegli raunverulegt aflaverðmæti. Fjárhæðir veiðigjalds á landaðan afla á árinu 2026 hafa verið auglýstar í stjórnartíðindum. Auk breytinga á fjárhæðum er frítekjumark veiðigjalds hækkað þar sem sérstakt frítekjumark er tekið upp fyrir þorsk og ýsu.

Aukatekjur

Ýmis önnur gjöld sem falla undir aukatekjur ríkissjóðs taka breytingum um áramótin. Má þar nefna hækkun á almennu gjaldi fyrir útgáfu vegabréfa úr 14.000 kr. í 19.000 kr. og flýtigjald fyrir útgáfu vegabréfa hækkar úr 28.000 kr. í 39.200 kr. Vegabréfagjald fyrir öryrkja og börn hækkar minna. Þá er töluverð hækkun á ýmsum gjöldum í tengslum við umsóknir um dvalarleyfi og ríkisborgararétt hér á landi.

Nýjustu fréttir

„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk
Guðbrandur Einarsson segir af sér þingmennsku
Mikill áhugi á Eyjagöngum
Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Kveikjum neistann: Jákvæðar vísbendingar
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.