„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að nú sé komin síðasta vikan sem Slippurinn er opinn. Staður sem margir hugsa til sem veitingastaðar en ég hugsa til sem heimilis, skóla og húss minninga sem eru margar af þeim bestu sem ég á,“ segir Gísli Grímsson á Fésbókarsíðu sinni. Hann er Eyjamaður og mikill vinur Gísla Matthíasar Auðunssonar matreiðslumeistara sem á rekur Slippinn með fjölskyldu sinni.
„Ég er svo lánsamur að við Gísli höfum verið bestu vinir síðan áður en Slippurinn opnaði og eitt haustkvöld árið 2011 fékk ég símtal frá Gísla þar sem hann var á ættarmóti með fjölskyldu sinni. Hann tjáði mér að hann ætlaði að opna veitingastað í Magnahúsinu í Vestmannaeyjum og vildi að ég myndi vinna með sér í eldhúsinu sumarið 2012.
Þegar kom að því að mæta átti til starfa það sumarið var heldur betur langt í land að veitingastaðurinn væri orðinn að raunveruleika. Fór fyrsti mánuðurinn það sumarið í að mála, slípa, lakka gólf, leggja rafmagn, hengja upp verkfæri á vegginn, láta barinn „ryðga“ og svo auðvitað reyna að átta okkur á því hvað það væri að vinna á a’la cart veitingastað. Það hafði hvorugur gert áður.
Ég starfaði á Slippnum í þrjú sumur, þar af tvö í eldhúsinu og svo síðasta sumarið á barnum þegar við byrjuðum að þróa kokteila að mestu úr jurtum af Eyjunni. Var það fyrsta skrefið í áttina að kokteilaseðlinum eins og hann varð hvað bestur og er í dag.
Takk Gísli, Indíana, Kata og Auðunn
Ég hef á hverju einasta sumri heimsótt Slippinn oftar en einu sinni, allt frá stuttu stoppi í eina humarsúpu í margréttaða veislu heila kvöldstund og rúmlega það. Ég hef upplifað allar breytingarnar, alla þróunina, allar hugmyndirnar báðu megin við borðið, sem starfsmaður og gestur en einnig sem vinur Gísla. Það sem stærst stendur upp úr er allt fólkið sem ég kynntist og vann með á þeim tíma sem ég var á Slippnum og minningar með þeim. Ógleymanlegar sögur og kvöldvökur eftir vaktir í sófasettinu, liðsandinn og sífellda ástríðan að veita alltaf aðeins betri upplifun í dag heldur en í gær.
Slippurinn er í mínum huga eins og ástarsaga af bestu gerð. Hver einasta persóna mikilvæg og skilur eftir sig fingrafar eða stórt fótspor í sögu staðarins sem kemur svo allt heim og saman á lokakvöldi Slippins á laugardaginn næstkomandi sem ég að sjálfsögðu mun ekki missa af.
Slippurinn hefur verið gott partý og góð partý þurfa alltaf að taka enda.
Ég gæti skrifað 100 blaðsíður um minningar, sögur, tilfinningar og mat á Slippnum en ætla að láta þetta gott heita hér og þakka Gísla, Indíönu, Kötu og Auðunni fyrir að hafa skapað þetta móment á okkar lífsleið sem Slippurinn hefur verið. Hugarheim og heimili sem nær svo miklu lengra heldur en að vera bara veitingastaður,“ segir Gísli í lokin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst