Alta hefur unnið aðalskipulagsbreytingu fyrir Vestmannaeyjahöfn sem samþykkt var á fundi framkvæmda- og hafnarráðs þann 15. nóvember sl. Á fundi ráðsins í vikunni var lögð er fram til kynningar skipulagslýsing fyrir breytt aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035 vegna stækkunar hafnarsvæðis Vestmannaeyjahafnar og nýrra hafnarkanta undir Kleifum og í Gjábakkafjöru.
Fram kemur í skipulagslýsingunni að Vestmannaeyjahöfn sé grundvöllur helstu atvinnustarfsemi og samgangna til og frá Heimaey. Þá segir að athafnasvæði hafnarinnar sé orðið aðþrengt og skilyrði til að taka inn stór skip erfið.
Til að tryggja nægt athafnarými og viðlegukanta við höfnina hafa bæjaryfirvöld áformað að stækka hafnarsvæðið og breyta aðalskipulagi á þeim svæðum þar sem ákjósanlegustu aðstæður eru taldar fyrir hafnarbakka, m.a. með tilliti til mögulegrar legu og athafna fyrir stærri flutningaskip. Í aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 er nú þegar gert ráð fyrir stórskipakanti fyrir utan Eiðið sem og landfyllingu á því svæði. Er sú staðsetning enn talin fýsilegur kostur en kostnaðarsöm og umsvifamikil framkvæmd.
Með tilkomu landeldis í Viðlagafjöru verður til nýtt athafnasvæði hafntengdar starfsemi á austurhluta Heimaeyjar og því skapast forsendur fyrir að hafnarsvæði fyrir flutningaskip verði staðsett austar á eyjunni. Það er talinn fýsilegur kostur að stækka hafnarsvæðið við Skansfjöru til austurs út í Gjábakkafjöru og reisa svokallaðan Brimneskant. Mikil aukning hefur verið á gámaútflutningi á undanförnum árum og ljóst að þörf er fyrir stækkun á gámasvæði. Því eru áform um að byggja upp slíkt svæði við Brimneskantinn. Að auki er horft til stækkunar viðlegukants við Lönguna í átt að Hörgaeyrargarði auk styttingar Hörgaeyrargarðs.
Staðsetning fyrirhugaðra breytinga sést á myndinni hér að ofan. Skipulagslýsing þessi er fyrsti liður í þessum breytingum.
Fyrirhugaðar breytingar á höfninni snúa að:
● Styttingu Hörgaeyrargarðs.
● Gerð viðlegukants undir Kleifum, við Löngu, með því að lengja hafnarkantinn
frá Kleifum í átt að Hörgaeyrargarði.
● Uppbyggingu stórskipakants, svokallaðs Brimneskants frá Skansfjöru yfir að Gjábakkafjöru, þar sem hægt verður að taka inn stærri flutningaskip, ekjuflutningaskip, auk farþegaskipa og góð aðstaða mun verða fyrir gáma.
https://eyjar.net/osamthykk-breytingum-a-hofninni/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst