Bæjarráð Vestmannaeyja hefur tekið fyrir á ný beiðni ÍBV-íþróttafélags um fjárveitingu til að hægt sé að setja hitalagnir undir Hásteinsvöll. Margrét Rós Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi D lista, lagði fram á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja tillögu vegna málsins um hitalagnir undir Hásteinsvöll. Meirihluti bæjarstjórnar greiddi atkvæði með tillögu forseta bæjarstjórnar um að vísa tillögunni til bæjarráðs.
Fram kemur í fundargerð bæjarráðs að ráðið hafi nýverið átt fund með framkvæmdastjóra og formanni ÍBV til að fara yfir málið. Í kjölfarið barst uppfærð styrktarbeiðni þar sem ósk um styrkupphæð er lækkuð úr 20 milljónum í 13 milljónir og byggir þessi breyting á því að félagið telur sig geta lagt til vinnu sem það taldi sig áður þurfa að greiða fyrir.
Bæjarráð óskaði eftir minnisblaði frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs til að meta stöðuna enn frekar m.t.t. tillögu Margrétar Rósar Ingólfsdóttur. Í minnisblaðinu er raunkostnaður við rekstur á gervigrasvöllum (keppnisvöllum) á Íslandi borinn saman við aðstæður í Vestmannaeyjum. Um er að ræða heilsársrekstrartölur m.a. á völlum sem hafa komið fram í gögnum frá ÍBV. Ljóst er að umbeðið framlag til fyrsta verkþáttar mun ekki gera það að verkum að hægt verði að hita völlinn, til þess þarf a.m.k. 45 milljónir til viðbótar. Er þá eftir allur rekstrarkostnaður sem er að meðtaltali 27 milljónir á ári m.v. sex mánaða notkun.
Í niðurstöðu segir að bæjarráð geti ekki samþykkt tillöguna sem vísað var til bæjarráðs frá bæjarstjórn. Varðandi breytt erindi ÍBV íþróttafélags, sem felur í sér að Vestmannaeyjabær styrki félagið um 13 milljónir af þeim 35 milljónum sem áætlað er að umræddur þáttur verksins kosti, leggur bæjarráð til að um þetta verði gerður sérstakur samningur sem verði lagður fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu á fundi hennar 19.02.2025. Í þeim samningi kæmu fram skilyrði Vestmannaeyjabæjar fyrir þessari fjárveitingu, m.a. að ÍBV skuldbindi sig til að ljúka þessum verkþætti án frekari fjárútláta af hálfu bæjarins – og að verkið valdi ekki töfum á áætluðum framkvæmdatíma verkefnisins í heild.
Jafnframt að ÍBV viðurkenni og samþykki að í samningnum felist engin skuldbinding af hálfu Vestmannaeyjabæjar til að ráðast í frekari framkvæmdir við tengingar og rekstur á umræddum lögnum á meðan búið er við það ástand í orkumálum sem nú ríkir varðandi framboð og verð.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera samning við ÍBV, sem byggir m.a. á ofangreindum skilyrðum, og leggja hann í framhaldinu fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu á fundi þann 19. febrúar. Bæjarráð felur fjármálastjóra að gera viðauka í samræmi við samninginn samþykki bæjarstjórn hann.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst