Svava Tara Ólafsdóttir er nýr eigandi verslunarinnar Sölku. Bertha Johansen opnaði verslunina fyrir um átta árum síðan og er nú komið að kaflaskiptum. Blaðamaður hitti þær í gær en þá var Bertha að standa sína síðustu vakt í Sölku og Svava Tara að fara taka við lyklunum eftir lokun. Salka, undir stjórn Svövu Töru opnar á morgun og er hún spennt fyrir komandi tímum og telur Bertha þetta vera gæfuspor fyrir fyrirtækið.
„Nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir og ný tækifæri og nú stend ég frammi fyrir nýjum tímum þegar ég sel Sölku. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í yndislegu samfélagi okkar Eyjamanna í hart nær tvo áratugi og Vestmannaeyjar verða alltaf „heim“ fyrir mér. Ég er ekki hvað síst þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast svo mörgu góðu fólki og þá ekki síst þau 14 ár sem ég kenndi við FÍV. Þannig komst ég hratt og örugglega inn í þetta magnaða samfélag sem Vestmannaeyjar eru. Þar ofan á fékk ég svo að kynnast fólki enn betur og fá enn dýpri sýn á Eyjuna og kynnst enn fjölbreyttari hópi fólks í þau 8 ár sem ég rak verslunina Sölku,“ sagði Bertha.
Berta vildi nota tækifærið og þakka einnig fyrir sig, „ég vil þakka því góða fólki, fjölskyldu, vinum, starfsfólki og viðskiptavinum sem með einum eða öðrum hætti hafa gert það að verkum að Salka hefur fengið að blómstra og dafna. Ég er líka einstaklega stolt af Svövu Töru, nýjum eiganda Sölku, að sýna það þrek og þor sem ég þekki Eyjamenn af og leggja út í þennan rekstur. Það er í mínum huga holt og gott bæði fyrir markaðinn í heild hér í Vestmannaeyjum sem og Sölku sem fyrirtæki. Þjónustan í Eyjum er bara eins og keðja. Það munar um hvern hlekk. Mér líður dáldið eins og að barnið mitt hún Salka sé að fá nýtt foreldri og engum treysti ég betur en Svövu Töru til að taka við henni. Ég er fullviss um að í höndum hennar þá á rekstur Sölku eftir að vaxa og verða enn betri. Að lokum hvet ég Eyjamenn til að halda áfram að sýna djörfung og þor. Væl, vol og sjálfsvorkunn hefur aldrei verið meðal Eyjamanna og í þá gryfju megum við ekki falla. Eyjarnar eru frábærar og við eigum ekki að hika við að segja frá því. Ég er bjartsýn á framhald Eyjanna og hlakka til að halda áfram að njóta samveru með Eyjamönnum um ókomna tíð,“ sagði Berta að endingu.
Nýjir tímar
Svava Tara er mjög spennt fyrir komandi tímum, „ég er virkilega spennt að takast á við þetta verkefni, Bertha hefur komið mér vel inní þetta og ég tek við góðu búi,“ sagði Svava Tara og vildi í leiðinni bjóða gamla sem og nýja viðskiptavini hjartanlega velkomna í Sölku.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst