Þau voru mörg viðfangsefnin sem þjóðhátíðarnefnd og allir sem komu að hátíðinni í ár fengu að kljást við. Föstudagskvöldið færði með sér óvenju kraftmikið veður, með miklum hvellum og hviðum sem gengu yfir Vestmannaeyjar fram á nótt. Í Herjólfsdal var allt á fullu, ekki af neyð, heldur samstillt átak þar sem hver og einn lagði sitt af mörkum til að allt gengi upp.
„Við byrjuðum að undirbúa okkur strax á föstudagskvöldinu,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar ÍBV. „Við höfðum lent í svipuðu áður og bjuggumst við að geta leyst þetta eins og áður en þetta varð meira en við héldum. Þá kom bara þessi ótrúlega samstaða í ljós.“
Hann lýsir því hvernig brennu- og gæslufólk, starfsmenn og hátíðargestir tóku höndum saman þegar hviður fóru yfir 30 metra. „Það var eins og allir vissu nákvæmlega hvað átti að gera. Sumir héldu tjöldum, aðrir færðu bekki, og við notuðum allt sem til var, jafnvel bekkina sjálfa til að halda búnaðinum föstum. Þetta var í raun stórkostlegt að sjá.“
Lögun Dalsins átti líka sinn þátt í leiknum, á einum stað blés eins og í stóriðjuveri en á öðrum var nánast logn. „Ég hljóp upp á brennu til að athuga stöðuna og þegar ég stóð á Klettinum voru lætin slík að mér leið eins og ég væri í miðju tónleikastigi náttúrunnar,“ segir Jónas hlæjandi.
Þegar lognið kom um kl. 02.00 tók nóttin nýja stefnu. Margir héldu áfram að skemmta sér í vari, aðrir fundu sér nýja samverustaði í Herjólfshöllinni eða víðar um bæinn. „Strætó fór að skutla fólki í bæinn, alveg frítt, og þetta var leyst á örskotsstund. Þeir hörðustu héldu áfram að dansa og syngja. Var hreinlega magnað að sjá hve margir voru áfram í Dalnum,“ segir hann.
Laugardagurinn og sunnudagurinn gengu síðan eins og í sögu. „Brekkusöngurinn í ár var frábær, sviðið, listamennirnir og fólkið í Brekkunni. Ég fékk mikið hrós fyrir útsendinguna, og það er alltaf gaman að sjá hversu fagmannlega þetta er unnið,“ segir Jónas.
Eyjafólk lagði líka sitt af mörkum til að gera helgina einstaka. „Það var tekið á móti gestum, þurrkuð föt og búnaður, hjálpað þar sem þurfti. Þessi hjálpsemi skiptir öllu máli, hún tryggir að fólk fari heim með bros á vör og vilji koma aftur, sama hvernig veðrið leikur við okkur,“ segir Jónas og heldur áfram.
„Aðsóknin var góð og sérstaklega á sunnudeginum, þegar rúmlega 1000 manns mættu sérstaklega til að syngja í Brekkunni. Nú þegar er hafin vinna við næstu hátíð. Þó veðrið hafi sett sinn dramatíska svip á Þjóðhátíðina í ár situr eftir minning um styrkan mannskap, hlýja samstöðu og hátíð sem enginn gleymir. Sjáumst að ári,“ sagði Jónas Guðbjörn formaður þjóðhátíðarnefndar að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst