Íris Róbertsdóttir. bæjarstjóri Vestmannaeyja ritar pistil á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar í dag. Tilefnið er Þjóðhátíðin sem var formlega sett í dag að viðstödddu fjölmenni. Pistil Írisar má lesa í heild sinni hér að neðan.
Það er alltaf jafn gaman að sjá Vestmannaeyjar bókstaflega fyllast af fólki sem komið til að gleðja sig og gleðja aðra. Við Eyjamenn hefjum hefðbundinn undirbúning löngu fyrr, allt er í föstum skorðum og jafnvel svo að sumar venjurnar eru orðnar það gamlar að enginn man lengur hver innan fjölskyldunnar bryddaði fyrst upp á þeim.
Í ár er stórafmæli, 150 ár frá fyrstu Þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem haldin var 2. ágúst 1874. Það er að vísu ekki rétt sem víða sést fullyrt, og ég hef alltaf trúað, að Eyjamenn hafi ekki komist til lands á þjóðhátíðina á Þingvöllum og því haldið sína eigin. Í fyrsta lagi hófst hátíðin á Þingvöllum þremur dögum eftir Þjóðhátíð Vestmannaeyja og í öðru lagi höfðu Vestmannaeyingar kosið 2 menn til að vera fulltrúar Eyjanna á Þingvöllum og mættu þeir báðir.
Það sem hins vegar er rétt og skiptir meginmáli er að hvergi annars staðar á Íslandi varð þjóðhátíðin 1874 upphaf reglubundinnar hátíðar, hátíðar sem hefur allt frá 1901 verið árviss viðburður. Síðustu 123 ár hefur Þjóðhátíð aðeins fallið niður árið 1914 auk Covid áranna 2020 og 2021 og er því hátíðin í dag líklega haldinn í 121. skiptið.
Þjóðhátíð Vestmannaeyja er því ekki aðeins stærsta heldur einnig elsta menningarhátíð landsins. Í ár mun nýkjörin forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, og menningarmálaráðherra Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, verða við setningu hátíðarinnar.
Það er sagt að 70-80% bæjarbúa hafi tekið þátt í fyrstu Þjóðhátíðinni fyrir 150 árum og allt frá þeim tíma hefur sérkenni hátíðarinnar falist í samvinnu og samveru. Hátíðin hefur alltaf verið haldin í Herjólfsdal nema þegar hún var á Breiðabakka vegna eldgossins á Heimaey. Það er ómetanlegt hvað margir leggjast á eitt við undirbúning þessarar stærstu bæjarhátíðar landsins, stórkostlegt hvað stórfjölskyldan og fjölmennir vinahópar halda í hefðir og skapa nýjar. Þessi sameining er það sem býr til hið einstaka andrúmsloft sem Eyjamenn og gestir segja að sé aðeins að finna á Þjóðhátíð. Setingin, brennan á Fjósakletti, flugeldasýningin og Brekkusöngurinn, svo aðeins fátt eitt af ómissandi dagskrá sé nefnt, skapa stemningu sem hvergi annars staðar finnst. Það eru forréttindi að fá að upplifa þessa sömu stemningu ár eftir ár sem engin orð ná að fanga.
Í Vestmannaeyjum er ævinlega talað um fyrir og eftir Þjóðhátíð. Svo djúpum rótum stendur þessi hátíð sem hóf göngu sína á sama stað fyrir 150 árum. Í heimildum er talað um að þessi fyrsta Þjóðhátíð hafi farið fram „með góðri glaðværð“ og það er einlæg von mín og allra Vestmannaeyinga að svo verði einnig á þessari Þjóðhátíð, hátíðinni okkar allra.
Gleðilega þjóðhátíð!
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst