Vestan stormur gekk yfir sunnanvert landið í gærkvöld og nótt, með hviðum sem mældust nær 40 metrum á sekúndu á Stórhöfða þegar mest gekk á. Veðurstofan hafði áður varað við talsverðum sjógangi í kjölfar stormsins, og reyndist það eiga við í Vestmannaeyjahöfn.
Samkvæmt heimildum Eyjafrétta fóru tveir léttabátar á hvolf í höfninni og sá þriðji fylltist nánast af sjó. Þá varð einnig tjón á flotbryggju austast í smábátahöfninni.
„Það varð óhapp í nótt og við erum að skoða hvað gerðist nákvæmlega. Flotbryggjan fór ekki upp með flóðinu sem olli því að tvær tuðrur fóru á hvolf. Nú fylgir flotbryggjan flóði og fjöru og virðist vera í góðu lagi,“ segir Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar.
Ljósmyndari Eyjafrétta var á staðnum í morgun og náði þessum myndum eftir óveðrið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst