Það var brugðið út af vananum, eins og stundum er gert, í hádegishléi starfsfólks í fiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar í dag. Boðið var upp á saltfiskrétti að portúgölskum hætti. Slíkt var einnig gert síðastliðið vor og heppnaðist þá afar vel. Það tókst ekki síður vel til núna. Maturinn frábær og góð stemning.
Um matargerðina sáu þær Carlota Teigas (Carla) og Susana Sequeira eins og í vor. Svo skemmtilega vill til að Carla á einmitt afmæli í dag og sendum við henni hamingjuóskir, segir í frétt á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar.
Boðið var upp á Punheta de Bacalhau, sem er marineraður saltfiskur og Bacalhau com natas, sem er ofnbakaður saltfiskur í rjómasósu. Í eftirrétt var svo afar góð ostaterta sem einnig á uppruna í Portúgal. Við þökkum Cörlu og Susönu fyrir enn og aftur, segir í umfjölluninni og er áhugasömum bent á að leita á netinu að nöfnum réttanna til að fá uppskriftir og leiðbeiningar um matreiðslu þeirra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst