Úttekt á Ferðasjóði íþróttafélaga
flug_ernir_farthegar_jan_2024_tms_lagf_2
Eitt af markmiðum með að koma Ferðasjóði íþróttafélaga á var að auka öryggi keppenda á ferðalögum með því að fleiri ferðir séu farnar með rútu eða flugi en færri með fólksbílum. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur unnið úttekt á Ferðasjóði íþróttafélaga. Úttektin er unnin af íþróttateymi ráðuneytisins út frá gögnum úr umsóknarkerfi Ferðasjóðs íþróttafélaga. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu. Úttektin byggir á gögnum áranna 2018–2024, en árið 2018 var farið að halda sérstaklega utan um kynskráningu. Á því tímabili voru 16.125 umsóknir sem uppfylltu úthlutunarreglur sjóðsins og úttektin byggir á.

Ferðasjóði íþróttafélaga var komið á með þingsályktunartillögu nr. 789. á 132 löggjafarþingi. Styrkir hafa verið veittir frá árinu 2007 til íþrótta- og ungmennafélaga í landinu vegna keppnisferða innanlands. Öll íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) hafa rétt til að sækja um styrk í sjóðinn, fyrir alla aldurshópa í viðurkenndum íþróttagreinum innan ÍSÍ á skilgreind styrkhæf mót. Styrkir reiknast út frá fjölda keppenda og vegalengd ferðar auk þess sem notast er við upphæðarstuðul og landsbyggðarstuðul.

Helstu niðurstöður úttektarinnar sýna að á tímabilinu hafa framlög til Ferðasjóðs íþróttafélaga ekki haldið í við aukinn ferðakostnað. Skráður ferðakostnaður hefur aukist úr 473 m.kr. í 695 m.kr. á tímabilinu sem er rétt um 47% aukning. Greiðslur úr Ferðasjóði íþróttafélaga hafa á sama tímabili dregist saman úr 127 m.kr. 2018 í 124 m.kr. árið 2024. Endurgreiðsluhlutfallið hefur því minnkað á tímabilinu, fór það úr 27% af skráðum ferðakostnaði árið 2018 í 18% árið 2024.

Endurgreiðsluhlutfall eftir landsvæði er lægst á Suðurnesjum (15%), höfuðborgarsvæðinu (17%), Suðurlandi (18%) og Vesturlandi (19%). Þar á eftir kemur Austurland (28%), Norðurland vestra (35%), Norðurland eystra (36%) og hæst er endurgreiðsluhlutfallið á Vestfjörðum (37%).

Eitt af markmiðum með að koma Ferðasjóði íþróttafélaga á var að auka öryggi keppenda á ferðalögum með því að fleiri ferðir séu farnar með rútu eða flugi en færri með fólksbílum. Á árunum 2008 til 2021 voru að meðaltali um 40% ferða farnar með rútum. Árið 2022 varð mikil breyting á algengi rútuferða, fór úr 38% af öllum ferðum 2021 niður í 29% 2022 og hefur hlutfallið haldist á þeim slóðum síðan.
Helstu niðurstöður sýna að úthlutanir Ferðasjóðs endurspegla vel hlutverk sjóðsins og ekki er óeðlileg skekkja varðandi undirþætti s.s. landshluta, afreksstig, kyn eða hvaða íþrótt um ræðir. Hins vegar hafa markmið um að ýta undir öruggari ferðamáta ekki náð fram að ganga, þar má gera ráð fyrir að lægra hlutfall af ferðakostnaði sem nú er styrkt hafi áhrif.

Nýjustu fréttir

Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.