Á stórhátíðum reynir á foreldra og þá skýrast fjölskyldutengslin upp sem hjá sumum eru orðin ansi flókin. Hvernig verður þetta hjá okkur um jólin?
Nú þegar hin mikla fjölskylduhátíð nálgast standa yfir samningaviðræður í mörgum fjölskyldum um hvar börnin eigi að vera um jól og áramót. Hverjir ætla að vera hvar á aðfangadag og hvernig umgengnin verði um jólin? Þá reynir mjög á fjölskyldutengslin hvernig málum er komið fyrir og hve auðvelt við gerum skilnaðarbörnum að umgangast fjölskyldur sínar, bæði móður-og föðurfjölskyldu.
Í flestum tilfellum tekst foreldrum skilnaðarbarna að sýna myndugleik og hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi þar sem allt fer fram í sátt og samlyndi. Margir hafa hefðbundið fyrirkomulag og börnin skiptast á að vera hjá pabba og mömmu um jólin. Í sumum fjölskyldum er hins vegar ósamkomulag og nánast stríð fyrir hver jól og því miður verða börnin stundum bitbein deilna og spennustuðullinn hækkar hjá allri stórfjölskyldunni. Afar og ömmur blandast jafnvel inn í málið og missa svefn vegna óöryggis og spennu í sambandi við jólin. Aðrir finna fyrir depurð að fá ekki að hitta sín eigin barnabörn og finna um leið fyrir kvíða að taka í fyrsta sinn á móti stjúpbarnabörnum sínum við jólaborðið? Hvernig verður þetta eiginlega um jólin?
Í skólum heyrist á samtölum nemenda að þeir eru mikið að velta þessu fyrir sér eins og gefur að skilja. Kennari einn varð vitni að samtali barna:
” hún er sko eiginlega systir mín núna af því pabbi hennar flutti inn til okkar um daginn”… og annar sagði við skólafélaga sinn: “pabbi þinn ætlar að vera hjá okkur um jólin en hvar verður þú?” Svo var það einn 7 ára sem var að útskýra fyrir umsjónarkennara sínum hvert hann færi í jólaboð og sagði svo í lokin. “hún er sko amma bróður míns”
Nýlega kynnti Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf í HÍ niðurstöður rannsóknar sem hún gerði ásamt Jóhönnu Rósu Arnardóttir, MA við félagsráðgjafarskor HÍ á upplifun ungmenna af skilnaði foreldra.(Sýn ungmenna á foreldratengsl, stuðning og röskun í kjölfar skilnaðar) Þar kemur fram að áhrif skilnaðar á börnin fara að miklu leiti eftir því hvernig hinir fullorðnu haga sér t.d. hvernig staðið er að skilnaðinum, hver segir börnum frá skilnaðinum og hvenær í skilnaðarferlinu þau fá að vita hvað í vændum er. Hægt er að nálgast niðurstöður rannsóknarinnar hjá Rannsóknasetri í barna-og fjölskylduvernd sjá nánar http://www.rbf.is Mikilvægt er að foreldrar ræði hreinskilningslega við börn sín og hugi að líðan þeirra og aldrei er það nauðsynlegra en á hinni miklu fjölskylduhátíð. Foreldrar hafið hagsmuni barnanna að leiðarljósi nú sem endranær.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
verkefnisstjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra
og jafnframt stjórnarmaður í Félagi stjúpfjölskyldna.