Margrét Lára Viðarsdóttir var í gær kjörin knattspyrnukona ársins hér á landi í þriðja sinn og annað árið í röð. Hún átti frábært ár með Val og landsliði Íslands og sló markamet með báðum liðum þrátt fyrir að vera ung að árum.
,,Ég átti alveg eins von á þessu en það voru þrjár frábærar knattspyrnukonur sem fengu verðlaunin í dag og hefðu allar átt þetta skilið, sagði Margrét Lára í samtali við Fótbolta.net eftir að hún hafði tekið á móti verðlaununum.
,,Þetta er mikill heiður og mikil viðurkenning fyrir gott sumar. Þetta toppar endann á góðu ári. Ég er bara 21 árs og ég vona að ég geti haldið áfram að bæta mig og náð góðum árangri.”
Eins og við greindum frá í gærmorgun mun Margrét Lára halda til Bandaríkjanna í dag þar sem hún mun vera við æfingar og skoða aðstæður hjá liði Indiana sem er fimmta besta kvennalið heims í dag og hún er spennt fyrir því að skoða málin þar.
,,Mér líst vel á það, það verður gaman að sjá hvernig fer í Bandaríkjunum. Það er mikið tækifæri að fá að fara þarna út og fá að sjá hvernig þeir setja þetta upp,” sagði hún og aðspurð sagðist hún ekki hafa planað að skoða Bandarísk lið áður en Indiana sýndi henni áhuga.
,,Nei, allavega ekki á þessum tímapunkti. Ég hef mikinn áhuga á að fara í bandarísku atvinnumannadeildina þegar hún kemur en það verður ekki fyrr en 2009.”
,,Nú fer að hefjast árið fyrir það þar sem liðin eru að skoða leikmenn fyrir atvinnumannadeildina og velja úr. Það er ákveðið tækifæri í því líka og þetta gæti verið stökkpallur upp í atvinnumannadeildina ef ég færi þangað.”
Margrét hefur til þessa helst haft áhuga á að leika í Svíþjóð eða í Þýskalandi á næstu leiktíð en hvernig býst hún við að bandaríska deildin verði?
,,Það er mikil óvissa hvernig þessi atvinnumannadeild verður, hvort hún fái til sín sterkustu leikmenn Evrópu eða ekki,” sagði hún.
,,Það mun skipta mestu máli hvort þeir fái leikmenn eins og Mörtu og Birgit Prinz og fleiri stúlkur úr Þýskalandi og Svíþjóð. Ef það tekst ekki þá held ég að atvinnumannadeildin verði ekki eins sterk og hún gæti orðið. Ef það tekst hinsvegar þá yrði þetta án efa sterkasta deild heims.”
,,Það verður gaman að sjá hvað þeir ætla að leggja mikið í þetta, umgjörð, þjálfarateymi og slíkt sem mun skipta miklu máli.
Margrét Lára skoðaði einnig aðstæður hjá Djurgården í Svíþjóð í haust og útilokar ekki að kanna þann möguleika enn frekar að ganga í þeirra raðir.
,,Ég er bara að skoða það ennþá. Það er ennþá inni í myndinni og það er flottur klúbbur sem væri án efa möguleiki á að skoða frekar. Ég hef hug á að skoða Svíþjóð ennfrekar og svo sé ég til hvað ég geri.”
Þrátt fyrir að hafa mikinn hug á að leika með atvinnumannaliði erlendis vildi hún þó ekki útiloka að vera áfram í Val þar sem hún hefur leikið undanfarin ár og slegið í gegn í íslensku deildinni.
,,Valur er frábært félag og það er verið að leggja mikið upp úr þjálfarateymi og umgjörð þar og það þarf góðan klúbb til að toppa það. Ég mun ekki fara úr Val nema eitthvað betra bjóðist.”