Vill lækka fasteignaskattinn

Trausti Hjaltason

Á fundi bæjarráðs í gær voru forsendur fjárhagsáætlunar næsta árs til umræðu. Þar ræddi Trausti Hjaltason fulltrúi Sjálfstæðisflokksins um að það ætti að leita allra leiða til að lækka álögur á bæjarbúa og horfa þar sérstaklega til fasteignaskatts. „Sá skattur bitnar fast á fjölskyldufólki sem þurfa að greiða sífellt hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt eftir því sem eignir í kringum þau seljast á hærra verði.

Fasteignaskattur er í eðli sínu eignaskattur. Miklar hækkanir eru framundan á fasteignamati og því mikilvægt að skoða alla möguleika til að lækka álögur á húseigendur í Vestmannaeyjum, enda á það að vera kappsmál bæjarstjórnar að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúanna.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskar eftir því að bæjarstjóri reikni út og leggi fram á næsta fundi bæjarráðs áhrif þess á bæjarsjóð að lækka fasteignaskatt því sem nemur a.m.k. hækkun fasteignamats fyrir árið 2019″, segir í bókun.