Bilun kom nýlega upp í flugleiðsögubúnaði einnar þriggja þyrlna Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF. Þyrlan má því ekki fara í blindflug. Komi upp neyðarástand úti á sjó að nóttu til getur Landhelgisgæslan því ekki brugðist við. Haft er eftir Sigurði Heiðari Wiium, yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar, í Morgunblaðinu í dag, að nauðsynlegt sé að hafa þyrlu sem sé hæf í blindflug til að geta farið í útköll á sjó í myrkri. Þjónusta Landhelgisgæslunnar mótast af því hvaða vélar sé hægt að nota hverju sinni. Þjónustan á landi og sjó sé ekki skert að degi til en hendur Landhelgisgæslunnar séu bundnar eftir að skyggja tekur.

Til stendur að endurnýja þyrluflota Landhelgisgæslunnar á næsta ári. Þangað til það verður gert þarf að viðhalda gömlu vélunum. Verið sé að leita að varahlut í TF-LÍF, en það gangi illa vegna þess hve búnaðurinn er orðinn gamall í þyrlunni. Erfiðara sé að fá varahluti í eldri vélar og leitin geti tekið langan tíma. Sigurður segir að ef þyrlurnar væru nýrri þá væri mun auðveldara að fá varahluti.