Í dag, miðvikudaginn 29. maí kl. 13:15 fer fram formleg vígsla varmadælustöðvar HS Veitna á Hlíðarvegi 4 í Eyjum en þar munu iðnaðarráðherra, Þórdís kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs HS Veitna í Vestmannaeyjum, opna stöðina með formlegum hætti.

Varmadælustöðin er 10,4 MW og er gert ráð fyrir að hún anni um 80% af orkuþörf hitaveitunnar en 20%, sem samsvarar hámarksálagi mánuðina nóv. – feb., komi frá kyndistöðinni. Orkunotkun kyndistöðvarinnar hefur verið 80 – 85 GWst síðustu árin en gert ráð fyrir að heildar orkunotkun verði innan við 30 GWst þegar öllum framkvæmdum verður lokið. Mismunurinn er sóttur í Atlantshafið með varmadælum. Það er þessi rösklega 50 GWst orkusparnaður sem á að gera verkefnið hagkvæmt því notkun hitaveituvatns og þá tekjur aukast ekki. Þessar 50 GWSt koma þá inn á almennan markað raforku og er varmadælustöðin þannig séð að okkar mati ódýrasti virkjunarkostur raforku um þessar mundir ! Þetta hefur verið mjög flókið og margþætt verkefni.

Bora þurfti sjóholur til að sækja 550 l/sek eða um 2.000 m3 á klukkustund af 5 – 12°C heitum sjó þar sem meðalhitinn er 8°C. Byggja þurfti tæplega 900 m2 hús, kaupa allan búnað, setja hann upp og tengja. Tengja þurfti kyndistöðina við varmadælustöðina því hlutverk varmadælustöðvarinnar er að taka á móti um 35°C heitu bakrásarvatni frá kyndistöðinni og hita í u.þ.b. 77°C. Loks þurfti að leggja lögn frá varmadælustöðinni út fyrir Eiði til að losna við þetta mikla magn af sjó sem nýttur er í varmadælustöðinni.

Kostnaður við verkefnið er um 1.800 m.kr. en af því voru 300 m.kr. fjármagnaðar með styrk úr ríkissjóði. Tilgangurinn með framkvæmdinni var að leita að hagkvæmasta úrræði til upphitunar húsnæðis í Eyjum til framtíðar litið og um leið að treysta orkuöflunina. Aðal orkugjafinn hefur verið ótrygg raforka sem sífellt er að verða ótryggari því meðaltal skerðinga síðasta áratuginn hefur verið 2 – 3% en áætlanir nú gera ráð fyrir 9 – 10% skerðingum í framtíðinni. Með þessari stöð ættu líka að heyra sögunni til viðlíka áföll eins og kom upp 2014 þegar lokað var á ótrygga orku í 10 vikur sem olli þá 240 m.kr. aukakostnaði fyrir HS Veitur og þá um leið notendur heita vatnsins í Eyjum.

Þó raforkunotkun minnki verulega með tilkomu varmadælustöðvarinnar verður hitunarkostnaður Eyjamanna í framtíðinni viðkvæmastur gagnvart kostnaði við raforkuna. Að lokum er rétt að taka fram, að með varmadælustöðinni á olíunotkun við upphitun á húsnæði Eyjamanna að minnka umtalsvert. Hún hefur að meðaltali verið rúm 6% af orkugjöfum veitunnar síðustu árin en fór sem dæmi upp í yfir 19% árið 2017.