Fréttir að afloknum loðnuleitarleiðangrinum á dögunum hafa ekki gefið tilefni til bjartsýni hvað loðnuvertíð varðar. Eitt þeirra skipa sem tóku þátt í leiðangrinum var grænlenska skipið Polar Amaroq og skipstjóri þar um borð var Geir Zoëga. Heimasíðan sló á þráðinn til Geirs og spurði hvort hann teldi að líkur væru á loðnuvertíð. „Staðreyndin er sú að það er loðna víða og ég er alltaf fullur bjartsýni. Það er loðna á 170 sjómílna belti en hún er ekki þétt og því erfitt að mæla hana. Ég hef tröllatrú á að það verði loðnuvertíð. Veður truflaði verulega loðnuleitina og það sem meira var að við lentum inn í ísspöng 10 mílur norður af Hala og fengum gat á stefnisperuna á bátnum. Ísinn sást illa í radar en þetta voru smájakar sem lágu í yfirborðinu. Við keyrðum á einhverja jaka og vorum síðan heilan klukkutíma að koma okkur út úr ísspönginni. Þegar við vorum komnir inn á Ísafjörð uppgötvuðum við að það hefði komið gat á stefnisperu bátsins vegna áreksturs við ísjaka. Þetta var ekki alvarlegt vegna þess að gatið opnaði einungis leið fyrir sjó inn í sjótank í stefni skipsins. Nú er verið að loka gatinu þannig að þetta verður allt í góðu lagi. Við erum tilbúnir að taka þátt í öðrum loðnuleitarleiðangri ef á þarf að halda en fyrirhugað er að fara í slíkan leiðangur snemma í febrúar. Ég hef tröllatrú á að niðurstaða hans verði jákvæðari. Að mínu mati ætti að gefa út einhvern smákvóta til þess að öll loðnuskip haldi til veiða og leiti. Íslensku loðnuskipin eru einungis 17 í dag og gott væri að fá þau öll út til að skima eftir loðnunni. Þetta er annað en fyrir 30 árum þegar loðnuskipin skiptu mörgum tugum,“ segir Geir Zoëga.

Í tengslum við þetta er rétt að rifja upp að í ársbyrjun 2017 ríkti mikil svartsýni um loðnuveiðar. Lagt var til að heildaraflamark á vertíðinni yrði einungis 57 þúsund tonn og hófu norsk skip veiðar við landið á meðan íslensk skip voru bundin vegna verkfalls. Þegar norsku skipin komu á miðin fundu þau mikla loðnu sem virtist koma fræðimönnum í opna skjöldu. Efnt var til nýs leitarleiðangurs í byrjun febrúar og í kjölfar hans var kvótinn fimmfaldaður. Staðreyndin er sú að loðnan getur komið mönnum á óvart rétt eins og síldin hefur margsinnis gert. Gunnþór B. Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir að full ástæða sé til að rifja upp reynsluna frá 2017 í þessum efnum og halda í þá trú að það verði loðnuvertíð. „Ég er fullur bjartsýni, það þýðir ekkert annað,“ segir hann.

Af vef Síldarvinnslunnar