Það munaði minnstu að Vestmannaeyingurinn Hlynur Andrésson úr ÍR setti Íslandsmet í 1500 m hlaupi innanhúss á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll á sunnudag. Hlynur hljóp á 3:46,40 mín. sem er innan við sekúndu frá Íslandsmetinu.

Íslandsmetið setti Jón Diðriksson 1. mars 1980 þegar hann hljóp á 3:45,6 mín. en þá var notast við hand-tímatöku. Eftir að tímatökur urðu rafrænar hefur enginn hlaupið hraðar en Hlynur en hann fór sömu grein á Reykjavíkurleikunum í fyrr á 3:45,97 mín.

Hlynur ætlaði sér Íslandsmetið í gær og var ekki langt frá því. Sigurtími Hlyns í hlaupinu þetta árið var 3:46,40 mín, sem er aðeins 43 hundruðustu úr sekúndu frá tíma hans í fyrra og 80 hundruðustu úr sekúndu frá Íslandsmeti Jóns Diðrikssonar.

Hlynur var svekktur með niðurstöðuna eftir hlaupið. Hann ætlaði sér meira. „Þetta var ágætt. Það er náttúrulega svolítið svekkjandi að missa af metinu aftur. En maður þarf meiri hjálp ef þú ætlar að setja Íslandsmet í 1500 metrum. Ég þurfti að leiða síðustu 700 metrana og það er aðeins of mikið,“ sagði Hlynur sem taldi sig þurfa héra sem gat haldið uppi hraða lengur í hlaupinu en 800 metra.

Getur hlaupið töluvert hraðar

„Þetta var svona fyrsta hlaup tímabilsins. Í raun var þetta svona til að koma sér í gírinn því ég keppi í 3000 m hlaupi á Norðurlandamótinu um næstu helgi í Helsinki. Þannig þetta var bara aðeins upp á að ná upp hraðanum. Ég veit að ég get hlaupið töluvert hraðar, en ég þarf meiri keppni til að geta gert það,“ sagði Hlynur.

Spurður um markmiðin í ár sagði Hlynur: „Já, það var náttúrulega að keppa í 3000 m hlaupi á HM innanhúss. En nú hefur Wuhan veiran komið í veg fyrir það. En EM [utanhúss] í París er stærsta markmiðið og svo sjáum við hvort Ólympíuleikar gangi upp líka,“ sagði Hlynur sem horfir þá til Ólympíulágmarksins í 3000 m hindrunarhlaupi. Viðtalið við Hlyn má sjá hér fyrir ofan.

Ólympíulágmarkið í 3000 m hindrunarhlaupi er 8:22,00 mín. Hlynur á best 8:44,11 mín í greininni. Það er þó líka horft til stöðu á heimslista. Miðað við núverandi stöðu er Hlynur í 281. sæti á heimslistanum. Staðan á honum getur þó breyst fljótt. Aðeins 45 karlar fá keppnisrétt í hindrunarhlaupinu á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.