Stuðningsmannahópur ÍBV Hvítu riddararnir sendu eftir hádegi í dag frá sér afsökunarbeiðni eftir umfjöllun fréttablaðsins um hegðun hópsins í bikarleik á dögunum. Samkvæmt heimildum fréttablaðsins mættu riddararnir með myndir af mæðrum leikmanna og öskruðu og börðu á klefahurðina eftir leik. Einnig kemur fram að á myndirnar hafi verið skrifuð alls konar skilaboð.

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir riddarana með mömmumyndirnar frægu en hvergi er að sjá nein skilaboð á myndunum. Fram kemur í afsökunarbeiðninni að þetta hafi allt verið gert í góðu gríni.

Róbert Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði að málið væri komið inn á borð til sín og nú færi af stað vinna til að afla frekari gagna. Málið fer inn til mótanefndar sem hefur kallað eftir frekari skýringum og greinargerðum frá málsaðilum.