Meirihluti félaga í öllum aðildarfélögum BSRB hafa samþykkti boðun verkfalls. Verkfallsaðgerðir munu hefjast mánudaginn 9. mars, takist samningar ekki fyrir þann tíma. Boðaðar verkfallsaðgerðir lýsa sér þannig að þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Frístund, Féló og sundlaugin munu loka

Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja segir að bærinn sé að fara yfir þessi mál ásamt forstöðumönnum stofnana. Verkföll aðildarfélaga BSRB munu hafa áhrif á þjónustuna en mismikið. “Sem dæmi mun starfsemi frístundar og félagsmiðstöðvar falla niður í verkfallinu. Starfsemi Íþróttamiðstöðvar mun skerðast þannig að sundlaugin verður lokuð og ekki verður hægt að halda úti skólaleikfimi.”

Náum að halda úti grunnþjónustu á Hraunbúðum og sambýlinu

Jón segir að þjónusta leik- og grunnskólans muni skerðast að einhverju leiti og sama gildi um heimaþjónustu til eldri borgara. “Við náum að halda úti grunnþjónustu inna Hraunbúða og sambýlisins en það mun verða röskun á ýmsum þjónustuþáttum. Öll söfn sveitarfélagsins loka. Þjónusta hafnarinnar skerðist m.a. þannig að ekki verður hægt að taka á móti stórum skipum. Þjónusta bæjarskrifstofu og tæknideildar lokast. Þetta er aðeins hluti af því sem afleiðing verkfalls hefur. Vestmannaeyjabær mun reyna að upplýsa sem best um stöðu mála en ég vona innilega að það takist nú að semja áður en til verkfalls kemur,” sagði Jón í samtali við Eyjafréttir.

Ekki boðleg framkoma

Unnur Sigmarsdóttir formaður Stavey segir að Samband íslenskra sveitarfélaga ekki enn hafa hitt samninganefndina eftir að verkfallsboðun var tilkynnt. “Það er miður, þar sem lítið stendur útaf borðinu. Boðaður hefur verið fundur á fimmtudag og vonandi gerist eitthvað þá. Nú er komið ár síðan samningar voru lausir og löngu orðið tímabært að klára þessi mál, þetta er auðvitað ekki boðleg framkoma,” sagði Unnur í samtali við Eyjafréttir.