Engin kórónaveirusmit hafa greinst í landvinnslu VSV, skipum, erlendum sölufyrirtækjum eða í Grupeixe saltfiskfyrirtæki VSV í Portúgal. Tveir sjómenn greindust með smit en annar var í fríi og hinn í sóttkví og aðrir í áhöfn voru því ekki í smithættu. Smit greindist í dótturfélagi VSV, Hafnareyri, og þar fóru því nokkrir starfsmenn í sóttkví.

Starfsfólk HSU í Vestmannaeyjum, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, skimaði eftir kórónaveiru hjá áhöfnum Breka VE og Ísleifs VE á miðvikudaginn var. Öll sýni reyndust neikvæð. Ísleifur heldur til kolmunnaveiða strax eftir páska og í lok veiðiferðar verður skipt um áhöfn og skimað eftir veiru áður en lagt verður upp til veiða á nýja leik.

Íslensk erfðagreining skimaði eftir veiru hjá áhöfnum Brynjólfs VE og Drangavíkur VE í gær, föstudaginn langa, og snýr sér að áhöfn Kap II á öðrum degi páska.

„Sóttvarnaráðstafanir Vinnslustöðvarinnar hafa skilað miklum árangri. Við erum afar þakklát öllu starfsfólkinu til sjós og lands fyrir að hafa lagst á árar með okkur, tileinkað sér og virt takmarkanir og reglur á vinnustöðum og utan vinnu.

Þetta gengur vonum framar á 300 manna vinnustað, ég hef fjöldann hreinu því við dreifðum 300 súkkulaðieggjum á línuna fyrir páskana!

Fólk fer einfaldlega varlega og verður að halda vöku sinni áfram. Hættan er engan veginn liðin hjá og við störfum í samfélagi þar sem faraldurinn hefur dreift sér hratt á skömmum tíma.

Þetta tekur á en samheldnin í fyrirtækinu er mikil og aðdáunarverð. Hér er unnið á fullum krafti í fiski í dag (laugardag 11. apríl) og undanfarna daga hefur hvert framleiðslumetið verið slegið í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar. Það er reyndar alveg makalaust í miðjum ótrúlega skæðum veirufaraldri.“

Lilja Björg Arngrímsdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og lögfræðisviðs, var útnefnd „generáll“ í baráttunni við kórónaveiruna á vettvangi VSV. Hún ræddi upphaflega við sóttvarnalækni Suðurlands til undirbúnings viðbragðsáætlun í fyrirtækinu og þegar fyrsta smit greindist í Eyjum var áætlunin virkjuð.

„Við skiptum fólki í hópa í landvinnslunni  og mæltum fyrir um að hópaskiptingin gilti jafnt á vinnusvæðum sem í skiptirýmum, á kaffistofum og snyrtingum. Kröfur um hreinlæti og þrif voru hertar stórlega alls staðar og handrið, hurðarhúnar, salerni, kaffiborð og fleiri snertifletir sótthreinsaðir reglulega.

Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum setti strangari takmarkanir en giltu á fastalandinu til að bregðast við skjótri útbreiðslu faraldursins hér. Áður en samkomutakmarkanir voru færðar úr 100 manns niður í 20 víðast annars staðar voru þær færðar niður í 10 manns í Eyjum. Við þurftum að endurskoða hópaskiptinguna í samræmi við þetta til að fækka þeim sem yrðu í hættu ef einhver greindist með smit.

Við létum vita af því að starfsmenn, sem teldu sig vera í sérstakri áhættu af einhverjum ástæðum, gætu verið heima og haldið launum á meðan. Um 20 manns gáfu sig fram en helmingur þeirra er kominn til starfa á ný. Það sýnir að starfsfólkið hefur fulla trú á og treystir því að sóttvarnarráðstafanir okkar séu öflugar og árangursríkar.

Ég leyfi mér að segja að fólk sé í öruggara umhverfi gagnvart veirusmiti hér í vinnunni en annars staðar. Við bendum fólki á að passa sig utan vinnu, umgangast einungis nánustu fjölskyldu og gæta sig vel úti í búð.

Áhafnir skipanna fengu leiðbeiningar og sérstaka sóttvarnakassa um borð. Einn skipverji okkar veiktist á sjó og skipstjórinn fékk leiðbeiningar frá Landhelgisgæslunni og aðgerðastjórn í Eyjum hvað bæri að gera. Viðbrögðin um borð voru fullkomlega rétt. Í ljós kom að skipverjinn var með venjulega flensu en verklagið okkar virkaði óaðfinnanlega.“