Handboltakonan Sandra Erlingsdóttir hefur gert tveggja ára samning við Álaborg í Danmörku. Liðið féll úr efstu deild á síðasta tímabili. „Þetta er mjög sterk deild og stefnan er sett beint upp aftur,“ sagði Sandra í samtali við Eyjafréttir. „Það er mikill metnaður þarna og ég er mjög spennt fyrir bæði liðinu og þjálfaranum. Mér er ætlað stórt hlutverk þarna komandi vetur.“ Sandra segir að þetta tilboð hafi komið upp með stuttum fyrirvara og hún hafi ekki haft langan tíma til að ákveða sig. „Kvennaboltinn í Danmörku er mjög sterkur og það er alger draumur að komast að þar,“ sagði Sandra.

Daníel Þór Ingason unnusti Söndru leikur einnig handbolta í Danmörku með Esbjerg. „Það er líka frábært að vera kominn í sama land og kærastinn en það er samt varla hægt að hafa lengra á milli okkar innan Danmerkur þetta eru c.a. 3 klukkustundir með bíl á milli. En það er allavegana styttra en til Vestmannaeyja.“

En Sandra skrifaði nýlega undir samning um að leika með ÍBV á komandi tímabili. „Hún var með ákvæði í sínum samningi við okkur að hún gæti leitað fyrir sér erlendis og hélt okkur vel upplýstum allan tímann um framvindu málsins. Þetta er frábært tækifæri fyrir Söndru og við erum bara ánægð fyrir hennar hönd og óskum henni góðs gengis. Hún veit líka að hún er alltaf velkomin í ÍBV aftur“, sagði Davíð Þór Óskarsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV í samtali við Eyjafréttir.