Sjötugasti árgangur Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja kom út í vikunni og er að venju fjölbreytt að efni. Sjómannadagsblaðið hefur frá upphafi verið gefið út af miklum metnaði og er einn helsti upplýsingabanki  um sjávarútveg í Vestmannaeyjum sem við eigum í dag. Og áfram er haldið á sömu braut. Í allri óvissunni í vetur á meðan Covid19 lamaði allt samfélagið tók Sjómannadagsráð ákvörðun um að Sjómannadagsblaðið kæmi út, hvað sem öllu samkomubanni leið.

Ekki nóg með það, heldur var ákveðið á síðasta ári að dreifa blaðinu frítt í öll hús í Vestmannaeyjum og koma því til valdra aðila uppi á landi. Og hér er blaðið komið, 132 blaðsíður eins og á síðasta ári og nú eru skátarnir að koma því til bæjarbúa.

Ráðið var strax ákveðið í að fara að öllum settum reglum um samkomuhald á Sjómannadaginn og niðurstaðan er að hátíðarhöld verða með venjubundnu sniði um helgina og kennir þar margra grasa eins og alltaf. Það eina sem dettur út er hátíðarsamkoman í Höllinni.

„Mikið hefur gengið á til sjávar og sveita og reyndar í veröld allri þetta árið og sér ekki fyrir endann á þeim ósköpum. Allt byrjaði þetta með miklum veðrum í desember og fram í mars þar sem ekki síst fólk á landsbyggðinni, í bæjum og til sveita, fékk að finna fyrir miskunnarleysi náttúruaflanna í ham,“ segir Ómar Garðarsson í ritstjórargrein og heldur áfram.

„Það átti líka við um sjómenn sem þurfa að taka því sem að höndum ber þegar veður er annars vegar. Það er ekki alltaf hægt að sigla í land þegar brælir. Á þetta við togara á fjarlægum miðum og ekki síður uppsjávarskipin á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi þar sem er eitt mesta veðravíti á jörðinni. Þar eru sjómenn í framlínunni í þágu þjóðarinnar ekki síður en fólk í heilsugæslu, lögreglu og hjálparsveitum sem þurft hefur að takast á við ógnarstór verkefni síðustu mánuði. Það verður að fara á sjóinn til að afla þjóðinni tekna, sama á hverju gengur. SJÓMENN ERU OG VERÐA ALLTAF Í FRAMLÍNUNNI. Mikið er rætt um afleiðingar Covid19 faraldursins sem er með stærri áföllum sem dunið hafa yfir land og þjóð og heiminn allan. Sjómenn hafa fengið að finna fyrir því með lægri tekjum vegna lækkandi fiskverðs á mörkuðum sem sumir hafa líka lokast alveg. Þetta er ekki rætt enda sjómenn ekki mikið fyrir að barma sér. Óvissan er mikil en vonandi sjáum við fram á betri tíð og að landið nái að rísa á ný. Þá eins og svo oft áður verða sjómenn í lykilhlutverki.“

Meðal efnis í blaðinu er saga Bergs Hugins og samskiptin við Síldarvinnsluna, ítarleg úttekt á útgerð Sæbjargar VE sem Hilmar Rósmundsson og Theódór Ólafsson stýrðu af miklum myndarskap. Rætt er við Olla málara sem byrjaði átta ára á sjó með afa sínum, spjall við yfirvélstjórann sem dundar sér við að læra lögfræði, úttekt á Herjólfi sem kemur á óvart, rætt við menn í skipstjórnarnámi, athyglisvert viðtal við Guðjón Ármann Eyjólfsson, liðsforingja í danska sjóhernum og skólastjóra, saga stórrar fjölskyldu sem missir fjölskylduföðurinn í sjóslysi og hrakningarsaga báts sem var talinn af þegar hann birtist eftir 38 daga hrakninga.

Ritstjóri er Ómar Garðarsson. Ljósmyndir: Hlynur Ágústsson, Óskar Pétur, Jói Myndó og Sigurgeir Jónasson. Umbrot: Lind Hrafnsdóttir. Auglýsingar: Lind Hrafnsdóttir. Próförk og yfirlestur: Atli Rúnar Halldórsson Úgefandi: Sjómannadagsráð Vestmannaeyja 2020 Sjómannadagsráð 2020: Formaður: Halldór Ingi Guðnason. Gjaldkeri: Brynjar Unnarsson Ritari: Sævald Hallgrímsson. Meðstjórnendur : Ágúst Halldórsson, Ragnar Þór Jóhannsson, Valur Már Valmundsson, Ólafur Már Harðarson, Ingi Þór Arnarsson, Ríkharður Stefánsson, Hólmgeir Austfjörð, Héðinn Karl Magnússon, Gísli Sigmarsson, Guðni Pétursson, Sigþór Friðriksson og Óðinn Guðmundsson.