Trúlega hafa sjaldan eða aldrei fleiri fylgst með dagskrá Sjómannadagsins á Vigtartorgi en í dag. Minnti á gömlu góðu dagana þegar safnast var saman við Friðarhöfn sem var miðpunktur hátíðarhaldanna. Hjálpaðist margt að, fjölbreytt dagskrá þar sem unga fólkið fær tækifæri til að spreyta sig. Gott veður og að mikill fjöldi er í bænum, bæði gestir á TM-móti stelpna og ferðamenn.

Kappróður og koddaslagur voru  á sínum stað, þurrkoddaslagur fyrir börnin, hoppukastali, Kjörís gaf ís og blöðrukall sem töfraði fram furðulegust fígúrur. Kynnar voru Ágúst Halldórsson og Raggi togari og gerðu það með sínum hætti.

Þetta er stór helgi í Vestmannaeyjum eins og kemur fram í grein Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra sem birtist í vikunni. Þar segir hún m.a.:

„Við fáum líka „venjulega“ sjómannahelgi þessa helgina eftir tveggja ára hlé. Sjómannadagurinn hefur verið haldin hátíðlegur hér í Eyjum síðan árið 1940 og er hátíðin alla helgina með veglegri dagskrá. Sjómannadagsráð leggur mikinn metnað í dagskrána fyrir okkur öll til að njóta, unga sem aldna, heimafólk og gesti.

Vestmannaeyjar hafa upp á margt að bjóða og efast ég ekki um að við öll eigum eftir að eiga góðar stundir næstu daga á okkar fallegu eyju.

Ég vil hvetja bæjarbúa og gesti til að taka virkan þátt í öllu því sem er í boði á næstu dögum. Góða skemmtun og gleðilega sjómannahelgi!“