Getur öllum orðið á?

Elís Jónsson skrifar

Þrátt fyrir að nú sé vel liðið á árið 2020 með öllum þeim krefjandi verkefnum sl. mánuði þá getur öllum orðið á og oft hægt að gera betur. Sjálfur er ég engin undantekning enda bý ég ekki yfir því að vera fullkominn frekar en margur annar. Mín leið er að reyna að undirbúa mig sem best fyrir það sem ég tek mig fyrir hendur en þannig get ég lámarkað hnökra og það sem miður fer. Í raun hef ég litið á lífið sem eilífðar lærdóm, alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi.

Starf í sveitarstjórn felur í sér samvinnu við pólitíska samherja, við aðra kjörna fulltrúa í sveitarstjórn, við starfsfólk sveitarfélagsins og við íbúa. Það sem liðið er af þessu kjörtímabili hefur mér hlotnast sá heiður að vera kjörinn forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Nokkuð krefjandi starf og kannski ekki það auðveldasta eins og kjörtímabilið hefur verið. Oft fengið ábendingar frá bæði meiri- og minnihluta enda sjónarmiðið oft mjög ólík. Á hluta tímabilsins hef ég jafnframt leitt fræðsluráð sem formaður ráðsins, í mörgum málum þarf að treysta á mikla og góða samvinnu við fólk í stjórnsýslunni. Þessu góða fólki getur líka orðið á eins og kjörnum fulltrúum.

Fyrir skömmu síðan var mikið gert úr leiðinlegum mistökum í bæjarráði. Formaður og bæjarstjóri brugðust hratt og örugglega við, bæjarstjóri sendi út fréttatilkynningu, haldinn aukafundur í bæjarráði ásamt því að viðkomandi bað kjörna fulltrúa í bæjarráði afsökunar. Í þessu samhengi er mikilvægt að gagnkvæmt traust ríki milli kjörinna fulltrúa og starfsfólks og má hvorugur aðilinn misbjóða hinum, þannig að traust þeirra rýrni. Því miður hefur það komið fyrir á kjörtímabilinu að hnýtt hefur verið í einstaka starfsfólk í stjórnsýslunni og er það miður.

Ég hef þó ekki áhyggjur að bæjarráð bíði álitshnekki í þessu einstaka atriði frekar en til dæmis þegar fræðsluráð tók fyrir ranga gjaldskrá á síðasta kjörtímabili þegar D-listi var í meirihluta og E-listi minnihluta. Stundum er gott að draga andann rólega og rifja upp önnur atvik sem ættu að vera bæjarfulltrúum á síðasta kjörtímabili enn í minni. Það er því áhugavert að bera þessi mál saman og viðbrögðin þó ég hafi hvorki verið bæjarfulltrúi eða setið í nefndum eða ráðum á þessum tíma. Gjaldskrá leikskólanna hafði bólgnað út án athygli þeirra sem sátu við völd þrátt fyrir að könnun ASÍ sýndi að dýrustu leikskólagjöld væru í Vestmannaeyjum. Í þessu tilviki skrifaði embættismaður grein 27. september 2017 og baðst afsökunar. Þetta mál var 26. september í fræðsluráði og næsti fundur 21. nóvember. Ekki var fundargerð eða málið tekið fyrir í bæjarstjórn 28. september heldur 17. október í bæjarstjórn þar sem allir bæjarfulltrúar tóku undir: ,,Vegna mistaka við undirbúning og frágang fundargerðar vill bæjarstjórn Vestmannaeyja taka fram að leikskólagjöld eru lækkuð úr…”

Þar sem ég hef nú stungið niður penna vil ég jafnframt nýta tækifærið og benda á að það er varhugavert fyrir kjörna fulltrúa sem eru fulltrúar íbúanna og hafa því umboðshlutverki að gegna gagnvart þeim að blanda umboðshlutverkinu inn í starfsmannamál þannig að þeir fari að skipta sér að einstöku starfsfólki. Það sem skiptir máli fyrir kjörna fulltrúa er hvort stjórnsýslan sem slík sé að standa sig í upplýsinga- og þjónustuhlutverki sínu en ekki einstaklingarnir. Það er hlutverk framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að hafa eftirlit með þeim.

Elís Jónsson
Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja