Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu forsætisráðherra um áframhaldandi samstarf ríkisins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar um kaup á þremur nýjum björgunarskipum. Tillagan gerir ráð fyrir að 150 milljóna króna árlegri fjárveitingu úr ríkissjóði í þrjú ár með fyrirvara um breytingar og samþykki Alþingis. Samhliða verði gert samkomulag við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um fjármögnun og viðhald björgunarskipanna til lengri tíma. Tillögurnar byggja á vinnu starfshóps sem skipaður var í kjölfar þess að Alþingi samþykkti 149. löggjafarþingi að vísa tillögu um eflingu björgunarskipaflota Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til ríkisstjórnar. Starfshópurinn heldur áfram störfum og mun fela Ríkiskaupum útfærslu útboðslýsingar.

Stefnt er að því að eitt þessara skipa verði staðsett í Vestmannaeyjum. Þetta staðfesti Guðni Grímsson hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja í samtali við Eyjafréttir. „Þetta ætti að tryggja okkur nýtt björgunarskip til Eyja. Við gerum ráð fyrir að fá eitt af þessum þrem skipum.“ Undirbúningsvinna er þegar hafin hjá félaginu. „Við fórum í haust og skoðuðum þrjá framleiðendur í Noregi, Svíþjóð og Eistlandi. Einnig er verið að skoða Finnskan framleiðanda sem og Rafnar í Kópavogi.“ Guðni segir að til skoðunar sé skip frá framleiðanda „gamla“ Þórs, Maritime Partners í Aalasund í Noregi. Skipið er talið henta vel aðstæðum í Vestmannaeyjum.
Guðni segir að mikil gleði ríki innan raða Slysavarnarfélagsins Landsbjargar með að ríkið skilji mikilvægi björgunarskipana og sé tilbúið að hefja þetta stóra og metnaðarfulla verkefni með endurnýjun á Björgunarskipaflota félagsins sem séu í heild 13 talsins.