Handknattleiksdeild ÍBV íþróttafélags var eina félagið í Vestmannaeyjum sem hlaut styrk úr úthlutun vegna sértækra aðgerða frá sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum sem höfðu orðið fyrir tapi eða tekjufalli vegna viðburða sem hætt var við á vormánuðum, vegna Covid-19 samtals 1.114.688 krónur.

Forsaga málsins er sú að ÍSÍ skipaði vinnuhóp 25. mars sl. til að móta tillögur að skiptingu þeirra fjármuna sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19. Þann 29. apríl 2020 var undirritaður samingur á milli mennta- og menningarmálaráðherra og ÍSÍ um 450 milljón króna stuðning vegna faraldurs Covid-19, sem gengið hefur yfir.

Þann 26. maí sl. var auglýst eftir umsóknum vegna sértækra aðgerða. Til úthlutunar voru eftirstöðvar fjárframlags ríksins, um það bil 150 milljónir króna. Alls bárust 98 umsóknir vegna sértækra aðgerða. Heildarupphæð umsókna voru tæpar 700 milljónir krónur.