Olís-deild karla fer af stað í kvöld þegar ÍBV heimsækir lið ÍR í Austurbergi. Flautað verður til leiks klukkan 18:00. Lið ÍR hefur tekið miklum breytingum milli ára og er spáð 11. sæti í Olísdeild karla í árleg spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna.

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV sagði í samtali við Eyjafréttir að veturinn leggist vel í liðið. „Við erum alveg meðvitaðir um að nú þarf að koma nýjum og yngri mönnum inn í hlutverk sem aðrir leikmenn hafa haft í nokkur ár, ekki bara leikfræðilega heldur þarf líka að ná fram hjá þeim karakter sem hefur einkennt ÍBV liðið síðasta áratuginn. Markmiðið er bara nokkuð ljóst í okkar huga, setja saman lið byggt í bland á eldri og nýjum leikmönnum sem leikur handknattleik á hugmyndafræði ÍBV. Megin áherslurnar eru þær að sýna jafnar framfarir í leik okkar, bæta tækni og líkamsástand leikmanna.“ Nánar er rætt við Erling í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.