Grímur Hergeirsson, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi, verður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Vesturlandi verður lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Þeir munu, samkvæmt heimildum Fréttastofu RÚV, fara til fundar við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur innanríkis- og dómsmálaráðherra á morgun og fá þar afhent skipunarbréf sín.

Sjö umsækjendur voru um embættið í Vestmannaeyjum,  auk Gríms voru það þau Arndís Bára Ingimarsdóttir, settur lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, Daníel Johnson, fjórði æðsti herlögreglumaður svissneska ríkisins G1(USC1) undir herlögreglustjóra Sviss,  Helgi Jensson, aðstoðarsaksóknari á Austurlandi, Kristmundur Stefán Einarsson, aðstoðarsaksóknari hjá ríkislögreglustjóra, Logi Kjartansson lögfræðingur og Sigurður Hólmar Kristjánsson, saksóknarfulltrúi.

Fimm sóttu um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Auk Úlfars voru það þau Daniel Johnson, fjórði æðsti herlögreglumaður svissneska ríkisins G1(USC1) undir herlögreglustjóra Sviss, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs LRH, Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari og Súsanna Björg Fróðadóttir, aðstoðarsaksóknari LSS.

Uppfært 17:50
Þessi tíðindi voru staðfest á vef stjórnarráðsins núna seinnipartinn. Þeir eru skipaðir í embætti að undangengnu mati hæfisnefndar. Þeir eru skipaðir í embætti frá 16. nóvember næstkomandi. Þar kemur fram að Grímur Hergeirsson hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík 1996, var hjá lögreglunni á Selfossi 1997-2000. Árið 2001 var hann kennari við Lögregluskóla ríkisins. Á árunum 2002-2004 var hann rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Selfossi en varðstjóri í almennri deild síðasta árið. Á árunum 2005-2007 vann Grímur hjá Sveitarfélaginu Árborg, sem verkefnastjóri íþrótta-, forvarna og menningarmála. Frá útskrift 2009 til 2014 var Grímur starfandi lögmaður í samstarfi við aðra. Hann var löglærður fulltrúi í um 9 mánuði hjá sýslumanninum á Selfossi á árunum 2014-2015. Árið 2015 færði hann sig til lögreglustjórans á Suðurlandi og var fyrst rannsóknarlögreglumaður, síðar löglærður fulltrúi ákærusviðs, en frá 2017 staðgengill lögreglustjóra og yfirmaður ákærusviðs embættisins. Grímur hefur tvisvar verið settur lögreglustjóri á árinu 2020 í samtals fimm mánuði, fyrst á Suðurlandi en síðan á Suðurnesjum.