Félag eldri borgara í Vestmannaeyjum stendur fyrir þorrablóti fyrir félagsmenn þann 5. febrúar, vegna faraldursins er ekki hægt að halda hefðbundið þorrablót. Þess í stað verður þorramatur sendur heim til félagsfólks, því að kostnaðarlausu. Um kvöldið verður send út tónlistardagskrá með tónlistarhópnum Blítt og létt sem verður öllum opinn. Þór Vilhjálmsson formaður félagsins sagði í samtali við Eyjafréttir að þetta fyrirkomulag hafi mælst vel fyrir hjá félagsmönnum. “Já það eru komnir 205 á skrá hjá okkur sem er mjög gott. Þar sem lítil starfsemi hefur verið hjá félaginu síðasta árið ákváðum við að bjóða á blótið án endurgjalds. Fólk hefur líka tekið vel í það að fá Blítt og létt hópinn heim í stofu og hefur litlar áhyggjur af tæknimálunum enda margir sem hafa þurft að aðlaga sig breyttum aðstæðum á síðustu mánuðum.”

Eins og áður segir verður streymið frá Blítt og létt opið öllum og verður aðgengilegt á vef Eyjafrétta þegar þar að kemur.