Blítt og létt hélt Eyjakvöld í Salnum í Kópavogi að kvöldi 4. nóvember í samstarfi við ÁtVR (Átthagafélag Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu). Gestir tóku vel undir og sungu með, oftast hástöfum. Á milli laga voru fluttar kynningar og skemmtisögur eins og vaninn er á Eyjakvöldum. Kvöldið tókst mjög vel og allir viðstaddir skemmtu sér konunglega.

Á meðal gesta var bóndi ofan úr Borgarfirði sem gerði sér bæjarferð til að njóta Eyjakvöldsins ásamt syni sínum. Rúmlega tvítug tékknesk stúlka vann á bænum í fyrrasumar. Einu sinni þegar hún var að dytta að og mála á bænum hljómaði þjóðhátíðarlag af spilalista sem hún var að hlusta á. Bóndinn fletti upp Eyjalögum og útskýrði fyrir henni að á eyju við suðurströndina væri haldin hátíð á hverju ári og í hvert skipti bættist við nýtt lag. Þeirri tékknesku þótti þetta stórmerkilegt!

Það er víst að Eyjalögin eru dýrmætur fjársjóður og menningararfur sem mikilvægt er að viðhalda og varðveita.


Forsöngvararnir Ólafur Týr, Unnur og Þórarinn leiddu sönginn af öryggi og hvöttu viðstadda til að taka undir. Undirleikararnir stóðu sig vel. Hrynsveitin, Diddi og Grímur, missti ekki úr takt og Matthías setti lit á flutninginn með saxófóninum.

Simmi og Magnús léku undir á gítara og sungu með og gerðu það smekklega.


Blítt og létt hópurinn á sviðinu í Salnum. Flutningurinn var fumlaus og fjörmikill.