Hinn 21. október næstkomandi eru liðin 110 ár frá fæðingu Alfreðs Washington Þórðarsonar. Eldri Vestmannaeyingar muna vel eftir honum en hann bjó hér í Eyjum frá sex ára aldri fram að gosi 1973. Vosi, eins og hann var jafnan kallaður, var góður tónlistarmaður, lærði píanóleik hér heima á Íslandi en einnig í Kaupmannahöfn. Hann lék einnig á harmonikku af mikilli list. Þá samdi hann mörg falleg lög sem urðu mjög vinsæl á sínum tíma en hafa mörg hver ekki mikið heyrst, í það minnsta í seinni tíð.

Sögusetrið í Vestmannaeyjum mun minnast tónlistarmannsins Alfreðs Washington á fæðingardegi hans með því að gefa út valin lög hans í  nótnahefti með textum eftir ýmsa samtímamenn hans. Umsjón með útgáfunni hafa þau Ragnar Óskarsson formaður Sögusetursins og Kitty Kovács organisti og kórstjóri Landakirkju og er undirbúningsvinna vegna útgáfunnar kominn vel af stað.

Þegar hefur verið safnað saman töluverðu af nótum, textum, upptökum og ýmsum gögnum sem eru grundvöllur útgáfunnar. Þrátt fyrir það er hér leitað aðstoðar þeirra sem búa yfir einhverri vitneskju um tónlist listamannsins. Öll  aðstoð er afar vel þegin.  Ef þið vitið um eða getið bent á einhver gögn sem nýst geta við útgáfuna, hafið vinsamlegast samband við undirritaðan, annað hvort með netpósti á [email protected] eða í síma 6946865.

Með fyrir fram þökk.

Ragnar Óskarsson