Sjálfsafgreiðslukassa í Krónunni vel tekið 

0
Sjálfsafgreiðslukassa í Krónunni vel tekið 
Ólafur Björgvin Jóhannesson, verslunarstjóri Krónunnar í Vestmannaeyjum

Eyjamenn fengu þrjá sjálfsafgreiðslukassa og eitt afgreiðslupúlt í verslun Krónunnar í byrjun desember síðastliðnum og hefur nýting á kössunum verið vonum framar. Í dag fer um helmingur af öllum innkaupum í gegnum sjálfsafgreiðslukassana á móti beltakössum. 

Að sögn Ólafs Björgvins Jóhannessonar, verslunarstjóra Krónunnar í Vestmannaeyjum, hafa viðskiptavinir verslunarinnar tekið lausninni afar vel þótt einhverjar efasemdir hafi fengið að hljóma en um er að ræða fyrstu sjálfsafgreiðslukassana í Vestmannaeyjum.

„Okkar viðskiptavinir hafa tekið lausninni fagnandi, þá sérstaklega í tilfellum þegar karfan er minni og vilji er fyrir því að sleppa röð á beltakassa eða fara hraðar í gegnum verslun. Við höfðum heyrt áhyggjur af því að tæknin væri að taka yfir og að starfsfólki myndi fækka með komu kassanna en svo er ekki. Í staðinn tekst okkur að auka og efla þjónustuna og störfin innan verslunar verða á sama tíma fjölbreyttari. Sjálfsafgreiðslukassarnir komu sér afar vel um jólin og gefur það góða mynd af því hvernig þeir geta nýst á álagstímum, t.d. þegar sumarið gengur í garð með stórum íþróttamótum, Þjóðhátíð og öllum ferðamönnunum. Við starfsfólkið erum alltaf boðin og búin til aðstoða viðskiptavini við sjálfsafgreiðslu og þökkum kærlega fyrir frábærar viðtökur á þessari þjónustunýjung hér í Eyjum,“ segir Ólafur.