Vestmannaeyjar eru frábær búsetukostur, hér eru öflugar menntastofnanir, framúrskarandi íþróttastarfsemi, fjölbreytt þjónusta og afþreying, stuttar vegalengdir, ægifögur náttúra og mikil samheldni. Vestmannaeyjar standa jafnframt í dag á mikilvægum krossgötum. Samfélagið er vaxandi og þarf að breytast í takt við nýja tíma til að verða í fararbroddi en ekki eftirbátur annarra. Helstu innviðir þarfnast uppfærslu og vinna þarf kröftuglega á næstu árum að koma þeim hratt og örugglega í betri farveg. Samgöngumál, orku- og fjarskiptamál, heilbrigðismál og sorpmál eru ofarlega á lista innviða sem þarf að bæta úr – fyrir þig.

Lýðræði – fyrir þig
26. mars næstkomandi fer fram, í fyrsta skipti í 32 ár, prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Prófkjör er persónukjör innan stjórnmálaflokks. Þú getur þannig valið sjálfur hverjir skipa efstu sæti lista Sjálfstæðisflokksins og hverjir munu því hugsanlega taka sæti í næstu bæjarstjórn. Þú getur tekið þátt ef þú ert:

  • eldri en 15 ára
  • ert skráður í Sjálfstæðisflokkinn, sem einfalt er að gera inni á www.xd.is
  • ert með lögheimili í Vestmannaeyjum

Fimmtán öflugir einstaklingar hafa tilkynnt um framboð sitt í prófkjörinu, undirrituð er þar á meðal, en ég sækist eftir að sitja áfram í 1. sæti listans. Ég mun á næstu vikum birta stutta pistla um helstu áherslumál mín á komandi kjörtímabili fái ég kjör til áframhaldandi starfa fyrir íbúa Vestmannaeyja. Ég vil vinna að hagsmunum samfélagsins og tryggja bjarta framtíð þess.

Ég vil vinna – fyrir þig
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum